Stofn (líffræði)

(Endurbeint frá Lífverustofn)

Stofn er hópur lífvera af sömu tegund sem lifa á afmörkuðu svæði. Í hverju vistkerfi komast þær lífverur helst af sem hafa lagað sig best að umhverfi sínu. Allir refir sem lifa á tilteknu svæði mynda stofn og öll birkitré í skógi mynda stofn. Allar lífverur í heiminum eru hluti af einhverjum stofni og þá sjaldan færri en tveim í einu.

Antilópur af sama stofni.

Umhverfið hefur áhrif á eiginleika stofnsins. Þannig veljast úr ákveðnir eiginleikar sem hjálpa lífverunni að lifa af. Það fer eftir umhverfinu hvaða eiginleiki gefur forskot. Þannig getur t.d. litur sem fellur betur inn í umhverfið hjálpað ákveðnum einstaklingum innan stofnsins að lifa af. Þeir sem ekki eru í góðum felulitum eru frekar veiddir af rándýrum og ná ekki að koma upp afkvæmum sem erfa litinn. Afkvæmum fjölgar sem hafa góðan felulit og þannig verður sá litur ríkjandi innan stofnsins og með tímanum jafnvel eini liturinn. Þetta kallast aðlögun.

Lífverur af sömu tegund geta átt saman frjó afkvæmi. Á mjög löngum tíma fer breytileikinn á milli stofna að verða það mikill að þeir geta ekki lengur átt saman frjó afkvæmi. Þá er komin sitt hvor tegundin sem á sama forföður.[1][2] Aðlögun stofna að umhverfi sínu er þannig ein af undirstöðum þróunar nýrra tegunda.

Erfðafræðilegur breytileiki innan stofns hefur áhrif á möguleika stofnsins að lifa af. Því stærri sem genapollurinn er þeim mun líklegra er að fleiri einstaklingar innan stofnsins lifi af þær áskoranir sem er að finna í umhverfinu (rándýr, sjúkdóma, fæðuskort, veðurfar o.s.frv.). Innræktun hefur áhrif á að breytileikinn verði minni og genapollurinn minnkar. Það eykur líkur á því að stofninn deyi út. Innræktun er þegar skyldir einstaklingar eignast saman afkvæmi.

Tilvísanir

breyta
  1. Fabricius, S. ofl. (2011). Maður og náttúra. Hálfdán Ómar Hálfdánarson þýddi og staðfærði. Reykjavík. Menntamálastofnun.
  2. Hurd D.; og fleiri (1996). Einkenni lífvera. Hálfdán Ómar Hálfdánarson og Þuríður Þorbjarnardóttir þýddu og staðfærðu. Reykjavík. Námsgagnastofnun.
   Þessi líffræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.