Kuldaboli bítur Daldóna

Kuldaboli bítur Daldóna (franska: Les Dalton dans le blizzard) eftir Morris (Maurice de Bevere) og René Goscinny er 22. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1963, en sagan sem hún hefur að geyma birtist fyrst í teiknimyndablaðinu Sval árið 1962.

Kápa ensku útgáfu bókarinnar.

Söguþráður breyta

Daldónarnir flýja úr fangelsi í Texas og Lukku Láki fær brátt símskeyti frá yfirvöldum þar sem hann er beðinn um aðstoð við að hafa uppi á strokuföngunum. Jobbi Daldón fær þá hugmynd að halda til Kanada þar sem Lukku Láka skortir lögsögu til að handtaka bræðurna í öðru ríki. Daldónarnir ná til Kanada en Lukku Láki fylgir í humátt á eftir ásamt Rattata. Lögreglan á staðnum, Péturgarpur liðþjálfi, skýrir Láka frá því að ekki sé hægt að handtaka Daldónana nema þeir brjóti af sér. Þegar Daldónarnir ræna veitingamann í nágrenninu halda Lukku Láki og liðþjálfinn af stað til að hafa hendur í hári þeirra. Daldónarnir flýja norður og nokkrir skógarhöggsmenn skjóta skjólshúsi yfir þá. Engu munar að Láka takist að klófesta Daldónana í nálægum bæ, en þeir komast undan við illan leik á trjábol niður straumharða á. Daldónarnir halda áfram ferð sinni norður á hundasleða og koma til gullgrafarabæjarins Gylltalækjar. Þegar Daldónarnir uppgötva að gullgrafararnir eru duglegir að eyða öllu fé sínu á krá bæjarins ákveða þeir að yfirtaka reksturinn.

Fróðleiksmolar breyta

  • Kuldaboli bítur Daldóna er fyrsta Lukku Láka bókin sem gerist utan landsteina Bandaríkjanna, en sagan gerist að mestu í Kanada. Höfundarnir nota tækifærið og draga upp mynd af íbúum Kanada sem er frábrugðin þeirri mynd sem gefin er af íbúum Villta Vestursins í bókaflokknum, t.d. eru hinir fyrrnefndu áberandi löghlýðnari en þeir síðarnefndu. Rúmlega 40 ár liðu þangað til Lukku Láki hélt aftur til Kanada í bókinni La Belle Province sem kom út árið 2004.
  • Kanada var bresk nýlenda á 19. öld og Péturgarpur liðþjálfi er greinilegur fulltrúi gamla heimsveldisins í sögunni, pollrólegur sama á hverju gengur og fær sér te með mjólkurdreitil útí við hvert tækifæri. Í sögunni er líka skírskotað til fransks uppruna Kanadamanna, en nokkrar persónur sögunnar bera frönsk nöfn, t.d. veiðimaðurinn Grospierre og skógarhöggsmaðurinn Minceruisseau.

Íslensk útgáfa breyta

Kuldaboli bítur Daldóna kom út á vegum Frosks útgáfu í íslenskri þýðingu árið 2020.