Krossreið fyrri eða Barkaðarmál var atburður sem gerðist á bænum Krossi í Austur-Landeyjum árið 1360 og eftirmál sem af honum urðu.

Á Krossi bjó þá bóndi sem Ormur hét en föðurnafn hans er óþekkt. Hann mun hafa átt í einhverjum útistöðum við Markús barkað Marðarson, sem virðist hafa verið ójafnaðarmaður og hafði áður farið með Jóni skráveifu Guttormssyni um umdæmi Árna hirðstjóra Þórðarsonar og framið alls konar spjöll. Markús, kona hans og tveir synir fóru að Krossi og veittu Ormi bónda áverka. Hélt annar sonurinn Ormi á meðan Markús og kona hans veittu honum áverkana.

Árni hirðstjóri handsamaði Markús og fjölskyldu hans og lét dæma þau fyrir ólöglega heimreið, rán og hernað á þingi á Lambey í Fljótshlíð um sumarið og voru þau höggvin eftir dóminn.

Þann 18. júní 1361 lét svo Smiður Andrésson, sem þá var orðinn hirðstjóri, höggva Árna Þórðarson á Lambeyjarþingi eftir að hann hafði verið dæmdur sekur um að hafa látið lífláta Markús og fjölskyldu hans í heimildarleysi. Varð þetta ekki til að auka vinsældir Smiðs og var ein af orsökum Grundarbardaga.

Tengt efni breyta

Heimildir breyta

  • „Gegn erlendu valdi V. Veizlan á Grund. Frjáls þjóð, 20. tbl. 1957“.