Krossneslaug
sundlaug á Vestfjörðum
Krossneslaug er steinsteypt íslensk útisundlaug við fjöruborðið, fáeina kílómetra frá Norðurfirði í Strandasýslu. Laugin var tekin í notkun 5. júlí árið 1954. Hún er 12 1/2 x 6 metrar að flatarmáli. Umhverfis hana er steyptur stígur og við hana standa steyptir búningsklefar. Laugin og önnur mannvirki í sambandi við hana munu hafa kostað um 140 þúsund krónur.
Það var ungmennafélagið „Leifur heppni" og hreppsnefndin á staðnum, sem stóðu að byggingu laugarinnar. Vatn í laugina fæst úr Krossneslaugum, sem er skammt frá, en svo hagar til, að skammt frá sjó er fagur hvammur, en í hann streymir sjóðheitt vatn frá fyrrnefndum Krossneslaugum, svo og kaldur bunulækur. Eru skilyrði þarna því hin ákjósanlegustu frá náttúrunnar hendi.