Kenilworth Road er heimavöllur enska knattspyrnufélagsins Luton Town. Völlurinn hefur þjónað félaginu frá árinu 1905, en um langt árabil hafa verið umræður um að rífa hann og byggja nýjan í staðinn annars staðar. Á níunda áratugnum var Kenilworth Road umdeildur meðal knattspyrnuáhugamanna þar sem hann skartaði gervigrasi. Nú um stundir tekur völlurinn allt að 10.356 áhorfendur.

Völlurinn á Kenilworth Road

Saga breyta

Luton Town var á hrakhólum árið 1905 eftir að eigandi Dunstable Road-vallarins seldi landareign sína skyndilega. Stjórnendur félagsins höfðu hraðar hendur og tryggðu sér lóð fyrir hinn nýja völl, en fyrsti leikurinn fór fram í byrjun september sama ár, 0:0 jafntefli gegn Plymouth Arglye. Fyrst um sinn var völlurinn kallaður Ivy Road en fékk síðar núverandi nafn sitt, sem vísar í götuna sem að honum liggur.

Miklar breytingar hafa átt sér stað á leikvangnum í gegnum tíðina og er enginn hluti hans upprunalegur, þannig brann aðalstúka vallarins til grunna árið 1921 og endurbyggð í kjölfarið. Áhorfendum fjölgaði ört á fjórða áratugnum og voru stúkur vallarins stækkaðar jafnt og þétt til að mæta þeim fjölda. Veturinn 1953-54 voru flóðljós sett upp, sem gerðu kvöldleiki mögulega.

Þegar á sjötta áratugnum hófust umræður um að reisa nýjan völl fyrir Luton Town og varð vissan um að flutningar væru yfirvofandi til þess að allt viðhald var vanrækt um langt árabil. Árið 1985 var þó ráðist í stórframkvæmdir þar sem gervigras var lagt á völlinn og stæðum meðfram einni hlið hans skipt út fyrir litla klefa ætlaða styrktaraðilum. Síðustu umtalsverðu framkvæmdirnar við völlinn áttu sér stað árið 2005 og hefur hámarksfjöldi áhorfenda haldist óbreyttur upp frá því.

Eignarhald breyta

Fyrstu tæpu þrjá áratugina leigði Luton Town leikvanginn, en festi kaup á honum á árinu 1933. Árið 1989 festu borgaryfirvöld í Luton kaup á vellinum með niðurrif í huga, en félagið fékk þó sjö ára leigusamning meðan unnið væri að gerð nýs vallar. Sá samningur hefur margoft verið framlengdur og er núverandi gildistími hans til ársins 2028.

Heimildir breyta