Juan Manuel Santos

Forseti Kólumbíu

Juan Manuel Santos Calderón (f. 10. ágúst 1951) er kólumbískur stjórnmálamaður sem var forseti Kólumbíu frá árinu 2010 til ársins 2018. Hann hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 2016.

Juan Manuel Santos
Santos árið 2018.
Forseti Kólumbíu
Í embætti
7. ágúst 2010 – 7. ágúst 2018
VaraforsetiAngelino Garzón
Germán Vargas Lleras
Oscar Naranjo
ForveriÁlvaro Uribe
EftirmaðurIván Duque
Persónulegar upplýsingar
Fæddur10. ágúst 1951 (1951-08-10) (72 ára)
Bogotá, Kólumbía
StjórnmálaflokkurEiningarflokkur alþýðunnar
MakiSilvia Amaya Londoño (skilin)
María Clemencia Rodríguez Múnera (g. 1987)
BörnMartín
María Antonia
Esteban
StarfHagfræðingur, blaðamaður, stjórnmálamaður
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels (2016)
Undirskrift

Santos hefur starfað sem hagfræðingur og blaðamaður. Hann er kominn af hinni ríku og valdamiklu Santos-ætt, sem var frá árinu 1913 meirihlutaeigandi fréttablaðsins El Tiempo þar til hún seldi það árið 2007. Santos gekk í Sjóhernaðarakademíuna í Cartagena og í háskólann í Kansas. Eftir útskrift gekk hann til liðs við Þjóðarsamtök kaffiræktenda Kólumbíu sem hagfræðiráðgjafi og sendifulltrúi til Alþjóðakaffisamtakanna í London, þar sem Santos gekk jafnframt í Hagfræðiskóla Lundúna. Árið 1981 var hann útnefndur aðstoðarritstjóri El Tiempo og varð ritstjóri tveimur árum síðar. Santos hlaut mastersgráðu í opinberri stjórnsýslu árið 1981 frá Harvard Kennedy-skólanum og hlaut árið 1988 Nieman-verðlaunin fyrir starf sitt sem blaðamaður og pistlahöfundur. Santos var meðlimur og varaformaður hugveitunnar Samtals milli Ameríkuríkja og forseti tjáningarfrelsisnefndar ameríska fjölmiðlasambandsins.

Árið 1991 var Santos útnefndur utanríkisverslunarráðherra af César Gaviria Trujillo forseta Kólumbíu. Santos vann að því að auka milliríkjaverslun við Kólumbíu og stofnaði ýmsar stofnanir í því skyni. Árið 2000 var hann útnefndur fjármálaráðherra af forsetanum Andrés Pastrana Arango.[1]

Santos komst til metorða í ríkisstjórn Álvaro Uribe Vélez Kólumbíuforseta. Árið 2005 tók Santos þátt í stofnun Einingarflokks alþýðunnar, flokkssamstarfs frjálslyndra íhaldsmanna sem studdi stefnumál Uribe. Flokknum tókst meðal annars að koma í gegn stjórnarskrárbreytingum sem gerðu Uribe kleift að gegna öðru kjörtímabili. Eftir að Uribe var endurkjörinn árið 2006 og Einingarflokkur alþýðunnar vann meirihluta á báðum þingdeildum Kólumbíu var Santos útnefndur varnarmálaráðherra og hélt áfram að styðja öryggisstefnu Uribe. Hann gekk hart fram gegn skæruliðahreyfingunni FARC og öðrum vígahópum sem ógnuðu almenningsöryggi í Kólumbíu. Santos tók við af Uribe sem forseti landsins eftir forsetakosningar árið 2010.

Þann 7. október 2016 hlaut Santos friðarverðlaun Nóbels fyrir friðarviðræður sínar við FARC, þrátt fyrir að hafa tapað þjóðaratkvæðagreiðslu um samþykkt friðarsáttmálans við samtökin.[2] Kólumbíska ríkisstjórnin undirritaði breytta útgáfu af friðarsáttmálanum þann 24. nóvember og sendi hann til staðfestingar þingsins. Báðar deildir þingsins staðfestu friðarsáttmálann 29. – 30. nóvember 2016 og bundu þannig formlega enda á átökin gegn FARC.[3]

Santos lét af embætti árið 2018 og við honum tók Iván Duque Márquez, sem hafði verið meðal andstæðinga samningsins við FARC og hafði lofað að endurskoða samninginn í kosningabaráttu sinni. Á stjórnartíð Duque hafa sumir meðlimir FARC vænt kólumbísku stjórnina um að rjúfa samninginn sem stjórn Santos gerði og hafa því tekið upp vopn á ný.[4]

Tilvísanir breyta

  1. „En Sus Puestos“. El Tiempo (spænska). Bogotá. 18. júlí 2000. ISSN 0121-9987. OCLC 28894254. Sótt 28. maí 2014.
  2. „The Nobel Peace Prize 2016 - Press Release“. www.nobelprize.org. Sótt 5. ágúst 2018.
  3. „Colombia's congress approves historic peace deal with FARC rebels“. Washington Post. 30. nóvember 2016.
  4. McDonagh; Pskowski (3. september 2019). „FARC leaders take up arms again“. The Tablet (enska). Sótt 27. nóvember 2019.


Fyrirrennari:
Álvaro Uribe
Forseti Kólumbíu
(7. ágúst 20107. ágúst 2018)
Eftirmaður:
Iván Duque