Keldudalur er bær í Hegranesi í Skagafirði, sunnan til í Nesinu að vestan. Þar hefur á undanförnum árum farið fram merkur fornleifauppgröftur.

Um miðja 19. öld bjó í Keldudal Jón Samsonarson, fyrsti alþingismaður Skagfirðinga, í forystu fyrir ýmsum framfaramálum sveitunga sinna og mikill og góður smiður, smíðaði meðal annars Víðimýrarkirkju.

Þegar verið var að grafa fyrir ferðaþjónustuhúsi í Keldudal árið 2002 komu í ljós mannabein og var forminjaverði þegar gert viðvart. Fljótt kom í ljós að þarna var kirkjugarður sem enginn hafði vitað af, enda eru engar heimildir til um kirkju í Keldudal. Garðurinn reyndist vera frá fyrstu öldum kristni; fyrstu grafirnar virðast hafa verið teknar um eða upp úr árinu 1000 en garðurinn var aflagður fyrir 1300. Þar fundust 52 heillegar grafir og þykja beinin hafa varðveist frábærlega, einkum þó beinagrindur ungbarna, sem sjaldan hafa fundist vel varðveittar áður. Talið er að samsetning jarðvegarins geri það að verkum að varðveislan hefur orðin svo góð sem raun ber vitni.

Undir garðinum fundust svo skýrar minjar af skála frá landnámsöld og skammt frá fannst kumlateigur úr heiðni. Þar voru meðal annars bein úr háfættum mjóhundi (greyhound) sem ekki hafa áður fundist á Íslandi. Leifar ýmissa fornra mannvirkja hafa komið í ljós við framhaldsuppgröft í Keldudal og þykja þær einstaklega vel varðveittar og Keldudalur einhver áhugaverðasti fundarstaður fornleifa á síðari áratugum á Íslandi.

Heimildir

breyta
  • „„Á þriðja tug 1000 ára beinagrinda fannst". DV, 28. september 2002“.
  • „„Forn helgistaður undir gjóskunni". Morgunblaðið, 10. ágúst 2003“.