Kastalinn í Nürnberg

Kastalinn í Nürnberg er elsta mannvirki borgarinnar Nürnberg í Þýskalandi. Hann var reistur á 11. öld og myndaðist borgin í kringum hann. Kastalinn er einkennisbygging borgarinnar.

Kastalavirkið er elsta mannvirkið í Nürnberg
Kastalakirkjan

Saga kastalans

breyta

Engar öruggar heimildir eru til um það hvenær kastalinn var reistur. Hann kom fyrst við skjöl 1050 og 1105 og hefur trúlega verið reistur um miðja 11. öld. Fyrir neðan hann myndaðist bær og kirkja. Kastalalinn sjálfur fékk heitið Nürnberg og var bærinn nefndur sama heiti. Nokkrum sinnum hefur kastalinn verið stækkaður. Um 1200 var kirkja reist við kastalann sem konungarnir notuðu. Þar við hliðina er 53 metra djúpur brunnur, þaðan sem vatn var að fá. Í kastalanum sátu allir konungar og keisarar þýska ríkisins, sumir meira, aðrir minna, allt til 1571. Aldrei hefur tekist að hertaka kastalann eða borgina í gegnum tíðina. Setið var um Nürnberg í þrjú ár meðan 30 ára stríðið geysaði, en ekki náðist að vinna hana. Eftir það stríð missti kastalinn hernaðarlegt gildi sitt. Í heimstyrjöldinni síðari varð kastalinn fyrir talsverðum skemmdum, bæði í loftárásum og götubardögum við Bandaríkjamenn. Aðeins kirkjan og eitt turnanna sluppu við skemmdir. Bandaríkjamenn eru því þeir einu sem náð hafa að hertaka kastalann.

Annað markvert

breyta

Kastalinn stendur á sandhrygg fyrir ofan miðborgina. Hann er opinn almenningi. Hægt er að skoða hann bæði að utan og innan. Kastalakirkjan sjálf er einnig opin. Hluti kastalans er notaður sem farfuglaheimili. Þar er einnig elsta stjörnustöð Nürnbergs sem stærðfræðingurinn Georg Christoph Eimmart setti upp á 17. öld.

Heimildir

breyta