Kaledóníuskógur
Kaledóníuskógur (enska: Caledonian Forest) er heiti á fornum skógi sem einu sinni þakti stórt landsvæði í Skotlandi. Nákvæmt umfang skógarins er ekki vitað með vissu en talið er að hann hafi legið fyrir norðan ána Clyde og fyrir vestan ána Tay.
Obbi skógarins samanstóð af skógarfuru sem þróaðist úr fyrstu furutegundunum sem námu land í Skotlandi um það bil 7.000 árum f.Kr. Skógurinn var hvað stærstur um það bil 5.000 f.Kr. Upp úr þeim tíma varð veðurfarið í Skotlandi vinda- og votviðrasamara. Þessi breyting gerði það að verkum að skógurinn hefði hörfað töluvert fyrir 2.000 ár f.Kr. Eftir það höfðu athafnir manna slæm áhrif á skóginn (þar á meðal notkun lands undir beit og dádýrahald).
Í dag lifir skógurinn áfram á 35 „leifasvæðum“ sem þekja um það bil 18.000 hektara. Skógarfururnar sem finnast á þessum svæðum eru þróaðar beint úr fyrstu furunum sem námu land í Skotlandi. Þessi tré hafa lagað sér að sérstökum umhverfisskilyrðum í landinu og eru því einstök á heimsvísu. Þau hafa verið í stöðugri þróun í yfir 9.000 ár.
Þessar leifar af gamla skóginum er að mestu leyti að finna á landi sem var of bratt, klettótt eða afskekkt til að nýta undir landbúnað. Stærstu leifarnar eru í Strathspey og Strath Dee, en þar vex skógurinn í mjög sýru og vel drenuðu jökulseti sem er að öðru leyti ónýtt. Talið er að lítil breyting hafi verið á umfangi skógarins frá 1600.
Heimild
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „Caledonian Forest“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 6. desember 2018.