Kæfisvefn er ástand sem einkennist af endurteknum öndunartruflunum í svefni ásamt syfju þegar fólk er vakandi. Hjá fullorðnum telst það öndunarhlé ef öndunin hættir alfarið í 10 sekúndur eða lengur. Öndunarhlé í kæfisvefni verða oftast vegna þrengsla eða lokunar í efri hluta öndunarvegarins (frá nefi að koki). Þá reynir einstaklingurinn að ná andanum með sífellt kröftugri innöndunartilraunum. Sjaldgæfari eru svokölluð miðlæg öndunarhlé þar sem ekkert loftflæði á sér stað en heldur ekki nein tilraun til öndunar. Eðli slíkra miðlægra öndunarhléa er talsvert annað en þeirra öndunarhléa sem eru vegna þrengsla. Kæfisvefn kallast það þegar öndunarhlé í svefni eru fimm eða fleiri á klukkustund. Rætt er um vægan kæfisvefn þegar fjöldi öndunarhléa er 5–15 á klukkustund, kæfisvefn á meðalháu stigi þegar fjöldinn er 15–30 á klukkustund og kæfisvefn á háu stigi þegar öndunarhléin eru 30 eða fleiri á klukkustund.

Einkenni kæfisvefns breyta

Einkennum kæfisvefns má skipta í tvennt; annars vegar þau sem koma fram í svefni og hins vegar þau sem koma fram í vöku.

Algengustu einkenni kæfisvefns:

Einkenni í svefni Einkenni í vöku
Hrotur Dagsyfja
Öndunarhlé Einbeitingarskortur og óþolinmæði
Óvær svefn – vaknar oft – martraðir Þreyta
Nætursviti Syfja við akstur
Tíð næturþvaglát Þörf fyrir að leggja sig á daginn
Vélindabakflæði

Algengi kæfisvefns breyta

Fyrir 1980 var kæfisvefn talinn fremur fátítt fyrirbæri. Með bættri rannsóknartækni og auknum áhuga á því að greina og meðhöndla kæfisvefn hefur komið í ljós að kæfisvefn telst til algengari langvinnra sjúkdóma. Kæfisvefn getur komið fram hjá báðum kynjum en er mun fátíðari hjá konum, sérstaklega fyrir tíðahvörf. Kvenhormón virðast að einhverju leyti vernda konur gegn kæfisvefni. Meirihluti þeirra sem greinast með kæfisvefn eru yfir kjörþyngd og virðist offita geta gert vægan kæfisvefn verri. Kæfisvefn getur komið fram hjá börnum og lýsir sér þá yfirleitt sem óvær svefn og hrotur að næturlagi en þreyta og óróleiki á daginn. Hjá þeim sem komnir eru yfir sjötugt eru stutt öndunarhlé algeng en hafa þó yfirleitt ekki eins mikla fylgikvilla í för með sér eins og hjá þeim sem yngri eru.

Meðferð við kæfisvefni breyta

Algengasta, áhrifamesta og öruggasta meðferðin við kæfisvefni er notkun svefnöndunartækis. Við meðferðina er notað tæki (CPAP-Continuous Positive Airway Pressure) sem tekur inn loft gegnum síu og blæs því lofti undir þrýstingi í gegnum slöngu/barka í öndunargrímu sem sofið er með. Þrýstingur loftsins heldur öndunarveginum opnum og kemur þannig í veg fyrir að hann falli saman og að hlé verði á önduninni með tilheyrandi falli í súrefnismettun og truflun á svefni. Hægt er að líkja áhrifum loftsins við það að spelku hafi verið komið fyrir í kokinu. Við vissar aðstæður hefur reynst vel að meðhöndla kæfisvefn með sérstökum lausum bitgómi, sem festist við efri og neðri tanngarð og heldur hökunni frammi í svefni. Einstaka sinnum eru gerðar skurðaðgerðir á fólki með kæfisvefn og er þá úfurinn og hluti af mjúka gómnum fjarlægður til að minnka þrengsli í koki.

Almennar ráðleggingar breyta

Mikilvægt er að huga vel að svefnvenjum, hafa háttatíma og fótaferðartíma reglulegan og heildarsvefntíma um 7–8 klukkustundir. Líkamleg þreyta, svefnlyf, róandi lyf og neysla áfengis fyrir svefn auka kæfisvefn. Mikilvægt er fyrir þá sem eru of þungir að létta sig. Í sumu tilfellum nægir að léttast um 5-10 kg til að verulega dragi úr einkennum kæfisvefns. Fjölbreytt fæði og reglulegir matmálstímar eru þær almennu leiðbeiningar sem reynast vel. Hreyfing hefur áhrif á almenna líðan og getur meðal annars dregið úr stoðkerfisverkjum sem geta truflað svefn. Því er mikilvægt að stunda reglubundna hreyfingu. Kæfisvefn getur verið stöðubundinn og kemur jafnvel eingöngu fram þegar fólk liggur á bakinu. Hægt er að koma í veg fyrir það með því að festa mjúkan bolta við bakið. Sumum þykir hjálpa að sofa með hærra undir höfði. Við verulegum kæfisvefni duga þó engin önnur ráð en meðferð með svefnöndunartæki.

Heimildir breyta