Flavius Iulius Nepos Augustus[1] (430 – 480) var keisari vestrómverska ríkisins formlega séð frá 474 til 480 en aðeins í reynd til ársins 475. Hann var líka leiðtogi rómversku Dalmatíu frá 468 til 480. Sumir sagnfræðingar skilgreina Nepos sem síðasta vestrómverska keisarann en aðrir telja vestrómverska keisaradæmið hafa liðið undir lok með Rómúlusi Ágústusi árið 476. Austrómverska ríkið og keisarar þess lifðu þetta tímabil þó af.

Julius Nepos
Vestrómverskur keisari
Valdatími 474 – 475

Fæddur:

um 430

Dáinn:

480
Dánarstaður Dalmatía
Forveri Glycerius
Eftirmaður Romulus Augustus
Keisaranafn Flavius Iulius Nepos Augustus

Nepos var gerður að keisara vestrómverska ríkisins árið 474 af austrómverska keisaranum, Leó 1., til að koma í stað valdaræningjans Glyceriusar. Nepos var steypt af stóli árið 474 af Orestes, sem tók við völdum í Ravenna þann 28. ágúst 475 og neyddi Nepos til að flýja með skipi til Dalmatíu. Orestes krýndi son sinn, Rómúlus Ágústus, keisara en þeim var brátt steypt af stóli af Odoacer.

Nepos ríkti áfram í Dalmatíu sem „keisari vestursins“ með viðurkenningu frá Konstantínópel en í reynd náðu yfirráð hans ekki út fyrir Dalmatíu. Nepos var ráðinn af dögum árið 480 og austurkeisarinn Zeno leysti þá formlega upp vesturhluta keisaradæmisins.

Valdataka breyta

 
Mynd af Nepos á gullmynt frá Mílanó.

Julius Nepos var útnefndur keisari vestrómverska ríkisins snemma árs 474 af austrómverska keisaranum Leó 1.. Nepos var kvæntur frænku Leós en var einnig sjálfur frændi landstjórans í Dalmatíu og fékk því viðurnefnið Nepos – „frændi“. Leó vildi losna við vestrómverska keisarann Glycerius, sem hann taldi valdaræningja. Glycerius hafði verið valinn keisari af ráðamönnum í Búrgúnd en sem austrómverski keisarinn átti Leó einn lögrétt til að skipa vestræna hliðstæðu sína.

Julius Nepos tók einnig við af frænda sínum, Marcellinusi, sem landstjóri Dalmatíu eftir að hann var myrtur á Sikiley. Dalmatía var formlega séð hluti af vesturríkinu en hafði í reynd verið sjálfstæð frá valdatöku Marcellinusar. Í júní 474 kom Nepos til Ravenna, neyddi Glycerius til að segja af sér og settist sjálfur á valdastól. Nepos þyrmdi lífi Glyceriusar og skipaði hann biskup í Salónu. Nepos réð í stuttan tíma yfir öllu sem eftir var af vesturríkinu, þ. á m. Dalmatíu og því sem eftir var af rómversku Gallíu.

Valdarán og valdatíð í Dalmatíu breyta

 
Hin sjálfstæða Dalmatía, þar sem Julius Nepos ríkti frá 468–480.

Valdatíð Neposar á Ítalíu lauk árið 475 þegar herforingi hans, Orestes, steypti honum af stóli og tók við stjórn í Ravenna þann 28. ágúst. Nepos neyddist til að flýja til Dalmatíu. Sama ár krýndi Orestes son sinn keisara undir nafninu Rómúlus Ágústus. Drengurinn var þá líklega um 15 ára gamall og varð þekktur undir uppnefninu „Ágústúlus“ sem merkir „Ágústus litli“.

Óljóst er hví Orestes krýndi sjálfan sig ekki keisara í stað sonar síns. Valdataka Rómúlusar var þó ekki lögleg þar sem hann hlaut ekki viðurkenningu austrómverska keisarans í Konstantínópel, en þar var enn litið á Nepos sem hinn eina réttmæta keisara vestrómverska ríkisins.[2] Stuttri valdatíð Rómúlusar lauk þann 4. september 476 þegar germanski höfðinginn Odoacer hertók Ravenna, drap Orestes og steypti Rómúlusi af stóli. Odoacer sendi Rómúlus Ágústus í útlegð til Kampaníu og hverfur hann þar úr ritaðri sögu.

Þótt eftirmanni hans hefði verið steypt af stóli sneri Nepos aldrei aftur til Ítalíu. Hann ríkti áfram í Dalmatíu sem „keisari vestursins“ og naut enn nokkurs stuðnings frá Konstantínópel. Odoacer vonaðist til að taka fram úr Neposi og notfærði sér rómverska þingið til að biðla til keisarans í austri um að vera veittur titillinn „patrísei“ og að leysa upp keisaratign vestursins. Zeno keisari veitti Odoacer patríseatitilinn en krafðist þess þó að Odoacer viðurkenndi formlega keisaratign Neposar. Odoacer féllst á þetta með semingi og notaðist jafnvel við myntir með nafni Neposar. Í reynd réð Odoacer þó einn sem sjálfstæður konungur Ítalíu þótt hann viðurkenndi að orðinu til yfirburði keisaradæmisins. Nepos gerði enn tilkall til keisaratitilsins en naut engra valda fyrir utan Dalmatíu. Vestrómverska keisaradæmið var því áfram til eftir árið 476 en aðeins sem merkingarlaus lagaklausa.

Morð breyta

Þessi málamiðlun entist ekki lengur en í fjögur ár. Árið 479 fór Nepos að brugga launráð gegn Odoacer og vonaðist til að endurheimta yfirráð yfir Ítalíu. Einnig er hugsanlegt að Glycerius hafi hugað á hefnd gegn Neposi. Ljóst er að Odoacer leit á Nepos sem ógn við vald sitt og ákvað að losa sig við hann.

Nepos var myrtur af einum hermanna sinna árið 480, líklega þann 25. apríl.[3] Sagt er að hann hafi verið stunginn til bana á setri sínu nálægt Salínu. Hugsanlegt er að hann hafi verið myrtur í setri Díókletíanusar.[4] Marcellinus Comes nefnir liðsforingja Neposar, Viator og Ovida, sem morðingjana. Sagnaritarinn Malchus telur einnig að fyrrverandi keisarinn Glycerius hafi leikið hlutverk í samsærinu. Nepos hafði útnefnt Glycerius biskup í Salónu og var hann því í grennd við morðstaðinn.[5] Einnig bendir það til sektar Glyceriusar að Odoacer útnefndi hann seinna biskup í Mílanó.

Ovida tók við völdum í Dalmatíu næstu mánuðina, en Odoacer notfærði sér morð Neposar sem tylliástæðu fyrir innrás.[5] Odoacer sigraði herafla Ovida þann 9. desember og innlimaði Dalmatíu í ríki sitt. Eftir dauða Neposar leysti Zeno keisari formlega upp skiptingu keisaradæmisins og batt enda á allt tilkall til „vestræns“ rómversks keisaradæmis fram á tíma Karlamagnúsar.

Tilvísanir breyta

  1. Martindale 1980, s.v. Iulius Nepos (3), pp. 777–778
  2. J. B. Bury, History of the Later Roman Empire, §4, p. 408.
  3. Ensslin, Wilhelm, “Julius Nepos”, in Paulys Realencyclopädie der classischen Altertumswissenschaft, Band XVI,2 (1935), S. 1505–1510.
  4. John Joseph Wilkes, Diocletian’s palace, Split : residence of a retired Roman emperor [S.l.], Ian Sanders Memorial Committee, 1993, [1986], XI-131, bls. 72.
  5. 5,0 5,1 MacGeorge (2002), p. 62