Jemeljan Púgatsjov

(Endurbeint frá Jemeljan Púgatsjev)

Jemeljan Ívanovítsj Púgatsjov (u.þ.b. 1742 – 21. janúar 1775) var rússneskur uppreisnarforingi af ætt Don-kósakka sem gerði tilkall til keisarakrúnu Rússlands á stjórnartíð Katrínar miklu. Hann hóf mikla bændauppreisn gegn Katrínu árið 1773 en var sigraður í lok ársins 1774 og tekinn af lífi í Moskvu í byrjun næsta árs.[1]

Jemeljan Púgatsjov
Емелья́н Пугачёв
FæddurÍ kringum árið 1742
Kotelnikovskij, Volgograd oblast
Dáinn21. janúar 1775
StörfHermaður, uppreisnarmaður
Þekktur fyrirAð leiða bændauppreisn gegn Katrínu miklu

Æviágrip

breyta

Púgatsjov var yngstur af fjórum börnum landeiganda af ættum Don-kósakka. Hann fæddist í kósakkaþorpinu Stanitsa í héraðinu Simovejskaja, þar sem nú er Volgógradfylki, og skráði sig til herþjónustu þegar hann var sautján ára. Púgatsjov kvæntist kósakkastúlku að nafni Soffíu Nedjusjevu ári síðar og eignaðist með henni fimm börn. Tvö þeirra létust í æsku.[2] Stuttu eftir giftinguna gekk hann til liðs við aðra rússnesku herdeildina í Prússlandi í sjö ára stríðinu. Hann sneri heim árið 1762 og varði næstu sjö árunum ýmist heima í þorpinu sínu eða við verkefni sem herinn úthlutaði honum.[3] Á þessum tíma varð hann kunnur fyrir herkænsku sína og var sæmdur kósakkahertigninni korunzhij. Hann byrjaði á þessum tíma einnig að segja lygasögur um eigin bakgrunn og stærði sig af því við félaga sína árið 1770 að „guðfaðir“ hans, Pétur mikli, hefði gefið honum sverðið hans.[3]

Árið 1770 baðst Púgatsjov lausnar úr hernum svo hann gæti látið sér batna eftir alvarleg veikindi. Þrátt fyrir átölur herforingja sinna afþakkaði hann ummönnun í hersjúkrahúsi og neitaði að snúa aftur í herinn. Að áeggjan tengdabróður síns, Símons Pavlov, gekk Púgatsjov til liðs við hóp óánægðra kósakka sem voru á flótta austur á bóginn til þess að stofna sjálfstætt samfélag kósakka á bökkum Terekfljóts.[4] Eftir að þeir höfðu komist yfir Don sneri Púgatsjov heim til Simovejskaja en stuttu síðar handsömuðu yfirvöld kósakkana. Pavlov viðurkenndi að Púgatsjov hefði verið aðili að liðhlaupinu og Púgatsjov var því handtekinn. Hann var í haldi yfirvalda í tvo daga en tókst síðan að sleppa og var þaðan af á flótta undan réttvísinni.[5]

Púgatsjov kom til kósakkabygðarinnar við Terekfljót í janúar árið 1772. Hann dvaldi þar í sex vikur og var kjörinn fulltrúi mótmælahreyfingar kósakka. Hann hélt til Sankti Pétursborgar til þess að leggja fram formlega kvörtun fyrir hönd kósakka en í Mosdok komst upp um að hann væri strokufangi og hann var því handtekinn. Hann slapp þann 13. febrúar og sneri heim en var þá handtekinn enn á ný.[4] Hann var sendur til að sæta yfirheyrslu í Tsjerkassk en þar hitti hann Lúkjan Ívanovítsj Kúdíakov og taldi hann á að sleppa sér. Hann flúði síðan til pólska landamæraþorpsins Vetka með hjálp óánægðra klerka.[6] Hann sneri aftur til Rússlands haustið 1772 í gervi rétttrúnaðarmanns af gamla skólanum. Hann hlaut leyfi til að setjast að í héraðinu Malíkovka, þar sem í dag er bærinn Volsk. Talið er að hann hafi á þessum tíma heyrt um uppreisn Jaík-kósakka.[7]

Uppreisn Púgatsjovs

breyta
 
Dómstóll Púgatsjovs eftir Vasílíj Perov.

Púgatsjov fékk snemma þá hugmynd að þykjast vera látni keisarinn Pétur 3. til þess að vinna stuðning rússnesku alþýðunnar gegn Katrínu miklu keisaraynju. Pétur hafði verið keisari í nokkra mánuði árið 1762 þar til stuðningsmenn eiginkonu hans, Katrínar, steyptu honum af stóli og myrtu hann. Margir uppreisnarmenn í Rússlandi höfðu áður þóst vera látnir keisarar eða týndir ríkisarfar.[8] Púgatsjov sagði kósökkunum að hann væri Pétur og hefði sloppið úr haldi Katrínar ásamt helstu stuðningsmönnum sínum. Hann vann hylli þeirra með því að lofa þeim ýmsum gömlum fríðindum og lofaði því að snúa við ýmsum óvinsælum umbótum sem gerðar höfðu verið á rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni á 17. öld.[9]

Púgatsjov safnaði saman miklum her með áróðri og loforðum um umbætur. Ásamt herforingjum sínum tókst Púgatsjov að leggja undir sig mikið landflæmi frá Volgu til Úralfjalla. Mesti sigur hans var að hertaka borgina Kazan árið 1774. Auk þess sem hann safnaði saman fjölda kósakka og bænda komst Púgatsjov yfir fallbyssur og skotvopn og tókst að útbúa her sinn mun betur en rússneskir herforingjar áttu von á.[10]

Hershöfðinginn Pjotr Panín hélt gegn uppreisnarmönnunum með mikinn her en varð lítið ágegnt vegna samgönguörðugleika, agaleysis og óhlýðni hermanna sinna. Á meðan unnu hermenn Púgatsjovs mikla sigra í næstum öllum orrustum. Það var ekki fyrr en í ágúst 1774 að hershöfðingjanum Johann von Michelsohnen tókst að sigra her uppreisnarmannanna við Volgograd. Þann 14. september 1774 sviku kósakkarnir Púgatsjov og framseldu hann til rússneskra stjórnvalda. Aleksandr Súvorov hershöfðingi lét setja hann í járnbúr og sendi hann fyrst til Símbírsk og síðan til Moskvu. Þar fór fram opinber aftaka á Púgatsjov þann 21. janúar árið 1775. Púgatsjov var hálshöggvinn, lík hans dregið eftir götum borgarinnar og síðan skorið í fjóra búta.[11]

Tilvísanir

breyta
  1. „Sögulegar forsendur rússnesku byltingarinnar“. Morgunblaðið. 7. nóvember 1967. Sótt 28. janúar 2019.
  2. Emperor of the Cossacks, bls. 43–45
  3. 3,0 3,1 Emperor of the Cossacks, bls. 45
  4. 4,0 4,1 Emperor of the Cossacks, bls. 46
  5. Emperor of the Cossacks, bls. 46–47
  6. Emperor of the Cossacks, bls. 48
  7. Emperor of the Cossacks, bls. 49
  8. Autocratic Politics in a National Crisis, bls. 142
  9. Autocratic Politics in a National Crisis
  10. Autocratic Politics in a National Crisis, bls. 144–145 & 175
  11. B.H. Summner, "New Material on the Revolt of Pugachev," The Slavonic and East European Review 19, (júní 1928): 121–22
Heimildir
  • Alexander, John T. (1969). Autocratic Politics in a National Crisis: The Imperial Russian Government and Pugachev's Revolt. Indiana University Press.
  • Alexander, John T. (1973). Emperor of the Cossacks. Coronado Press.