Madame de Pompadour
Jeanne-Antoinette Poisson, markgreifynja af Pompadour (29. desember 1721 – 15. apríl 1764), yfirleitt kölluð Madame de Pompadour, var frönsk aðalskona og helsta frilla Loðvíks 15. Frakklandskonungs frá 1745 til 1751. Pompadour naut mikilla áhrifa sem ráðgjafi konungsins og tókst að tryggja sjálfri sér og ættingjum sínum fjölmarga aðalstitla á árum sínum í þjónustu hans. Í um 19 ár stjórnaði hún lista- og samkvæmislífi Frakklands og naut auk þess verulegra pólitískra valda.[1] Hún eignaðist þó fyrir vikið marga óvini.
Jeanne-Antoinette Poisson, markgreifynja af Pompadour | |
---|---|
Fædd | 29. desember 1721 |
Dáin | 15. apríl 1764 (42 ára) Versölum, Frakklandi |
Störf | Aðalskona, hjákona |
Trú | Kaþólsk |
Maki | Charles-Guillaume Lenormant d'Étioles |
Börn | Charles Guillaume Louis Le Normant d'Étiolles og Alexandrine Le Normant d'Étiolles |
Foreldrar | François Poisson & Madeleine de La Motte |
Undirskrift | |
Gagnrýnendur Pompadour útmáluðu hana sem spillandi áhrifavald í hirð konungsins en sagnfræðingar hafa litið hana jákvæðari augum vegna stuðnings hennar við franska list og þjóðarstolt.[2] Listfræðingurinn Melissa Hyde hefur fært rök fyrir því að óttinn og gagnrýnin í garð Pompadour hafi fyrst og fremst stafað af andúð á því að kona úr millistéttinni nyti svo mikilla valda.[3]
Æviágrip
breytaJeanne-Antoinette Poisson fæddist í París árið 1721.[4] Hún hlaut strangt uppeldi hjá föður sínum, sem var birgðavörður í franska hernum, og gekk í strangan klausturskóla. Jeanne-Antoinette þótti ágætur nemandi en þegar hún var ung varð fjölskylda hennar fyrir því óláni að fjölskyldufaðirinn var sakaður um vanrækslu í starfi og neyddist til að flýja til Þýskalands.[4] Móðir Jeanne-Antoinette, Madeleine, tók sér fjárfestinn Charles François Paul Le Normant de Tournehem að elskhuga í fjarveru eiginmannsins. Þar sem Madeleine var alræmd fyrir að vera ótrú eiginmanni sínum var það haft fyrir satt að Jeanne-Antoinette væri í raun dóttir de Tournehems eða annars elskhuga hennar.[5]
Sagt er að þegar Jeanne-Antoinette var níu ára hafi móðir hennar farið með hana til að hitta spákonu til að spá fyrir um framtíð stúlkunnar. Spákonan hafi síðan tjáð mæðgunum að ef þær brygðust skjótt við yrði Jeanne-Antoinette ástkona konungsins og voldugri en nokkur einvaldur.[6] Þaðan af hlaut Jeanne-Antoinette gælunafnið Reinette („litla drottning“) og foreldrar hennar einsettu sér að gera hana boðlega konungnum.[7] De Tournehem réði góða kennara fyrir Jeanne-Antoinette og lét kenna henni söng, dans, framsögn og listasögu. Hann lét síðan gifta hana frænda sínum, Charles Guillaume d'Étoiles.[4] Jeanne-Antoinette komst fyrst í kynni við Loðvík 15. Frakklandskonung þegar hann hélt á veiðar í skógi nærri landareign hjónanna.[8] Hún var þá þegar búin að einsetja sér að ná athygli hans en lét sér nægja í þetta sinn að mæta augnaráði hans og láta sig síðan hverfa.[4] Þau Loðvík hittust fyrst formlega þann 28. febrúar 1745 á grímudansleik í París. Á dansleiknum henti hún vasaklútnum til konungsins og lét hann beygja sig eftir honum og kasta til hennar.[4]
Nokkrum vikum eftir dansleikinn var Jeanne-Antoinette boðið til kvöldverðar hjá konungnum í Versölum. Næsta apríl bauð hann henni í samkvæmi ásamt hirð sinni og í maí flutti hún alfarið til konungshirðarinnar í Versölum.[4] Ástarsamband var þá þegar hafið milli Jeanne-Antoinette og konungsins og Loðvík skrifaði henni fjölda ástarbréfa á meðan hann var að heiman til ágústmánuðar. Í fjarveru konungsins fékk Jeanne-Antoinette löglegan skilnað frá eiginmanni sínum og hlaut síðan aðalstitilinn markgreifynja af Pompadour.[4] Pompadour var fyrsta millistéttarkonan sem varð opinber frilla Frakklandskonungs.[1]
Náið samband Loðvíks og Pompadour gerði konunginn að athlægi fyrir frönsku þjóðinni. Mikið var um slúður og háðsvísur sem urðu kallaðar „fiskavísur“ eða Poissonnades (eftir fæðingarnafni Pompadour, Poisson, sem þýðir fiskur á frönsku).[4] Pompadour nýtti sér aðstöðu sína til að halda hátíðir og listasýningar og fegraði frönsku hirðina. Hún lét setja upp glæsilegar leik- og óperusýningar í Choissy-höll og laðaði til sín marga helstu listamenn og heimspekinga samtímans. Loðvík opnaði fyrir henni franska ríkiskassann og Pompadour gerðist velgjörðarmaður heimspekinga Upplýsingarinnar eins og Voltaire.
Sem frilla konungsins náði Pompadour miklum pólitískum völdum. Hún skipulagði meðal annars ráðstefnu á setri sínu í Bellevue árið 1756. Þar átti hún þátt í stofnun bandalags milli Frakklands og Austurríkis. Stjórnmálaáhrif Pompadour fóru að dala eftir ósigur Frakka og Austurríkismanna í sjö ára stríðinu og heilsa hennar versnaði. Heilsubrestur hennar og ofkeyrsla leiddu til þess að hin fræga fegurð hennar fölnaði og auður hennar þvarr. Í febrúar 1764 lá Pompadour rúmföst vegna berkla og lést loks þann 15. apríl. Loðvík sat við dánarbeði hennar allan tímann og kvaðst ekkert geta gefið henni nema tár sín þegar hún var öll.
Tilvísanir
breyta- ↑ 1,0 1,1 „Lúðvík XV. og Madame de Pompadour“. Heimilisritið. 1. febrúar 1951.
- ↑ James A. Moncure, ed. Research Guide to European Historical Biography: 1450–present (4 vol 1992); 4:1646–53
- ↑ Hyde, Melissa (2000). „The "Makeup" of the Marquise: Boucher's Portrait of Pompadour at Her Toilette“. The Art Bulletin. 82 (3): 457. doi:10.2307/3051397. JSTOR 3051397.
- ↑ 4,0 4,1 4,2 4,3 4,4 4,5 4,6 4,7 „Madame Pompadour: Hún stjórnaði konunginum og ríkinu“. Vikan. 6. júní 1974.
- ↑ Xavier Salmon, Madame de Pompadour et les arts, París, Éditions de la Réunion des Musées Nationaux, 2002, bls. 64–65.
- ↑ „Hvernig Pompadour náði tangarhaldi á Lúðvík 15“. Dagblaðið. 9. október 1975.
- ↑ Hooper-Hamersley, The Hunt, 64 and Gere and Vaizey, Great Women Collectors, 46.
- ↑ Alfred Leroy, Madame de Pompadour et son temps, Paris, Éditions Albin Michel, 1949, bls. 24.