Jón Sigurðsson (í bankanum)
Þessi grein þarfnast hreingerningar svo hún hæfi betur sem grein hér á Wikipediu. Aðalvandamál þessarar greinar: vantar interwiki hlekki |
Jón Sigurðsson, einnig þekktur sem Jón í bankanum (13. júlí 1925 – 29. janúar 1992) var íslenskur harmónikkuleikari, lagahöfundur, textaskáld og afkastamikill textasmiður en blómatími hans var í kringum 1960. Hann samdi bæði lög og texta og þekkt eru „Komdu niður“, „Í kjallaranum“ og „Einsi kaldi úr Eyjunum“ auk annarra. En þegar eftirspurnin var sem mest eftir íslenskum textum fékk Jón svo mikið að gera að textarnir „...runnu beinlínis frá honum eins og af færibandi. Hann sagðist oft hafa þurft að „rubba“ af textum“ (Gunnar L. Hjálmarsson 2001:35-36)[1]. Meðal laga og/eða texta sem Jón samdi eru „Ég er kominn heim“, „Komdu í kvöld“ og „Úti í Hamborg“.
Æviágrip
breytaJón Sigurðsson fæddist á Brúnum undir Eyjafjöllum 13. júlí 1925, sonur hjónanna Sigurðar Vigfússonar og Bjargar Jónsdóttur. Þeirra sambúð varð ekki löng því Sigurður lést um aldur fram og var Jón þá aðeins tíu ára gamall. Björg og Sigurður áttu tvö önnur börn, Guðrúnu sem býr á Hvolsvelli og Vigfús sem búsettur er á Hellu. Björg giftist aftur og var seinni maður hennar Sigmundur Þorgilsson. Þau bjuggu á Asólfsskála og síðar á Hellu og áttu tvö börn, Halldóru á Hellu og Sigurð í Ey í Vestur-Landeyjum. Jón fluttist fimmtán ára gamall frá Brúnum að Ásólfsskála og var þar nokkur ár með móður sinni og fóstra. Eftir barnaskólanám fór hann í skóla að Laugarvatni. Til Reykjavíkur fluttist hann um tvítugsaldur. Þar hóf hann vinnu í Viðtækjaverslun ríkisins. Hann hóf störf við Búnaðarbanka Íslands árið 1952 og starfaði þar í 35 ár. Hann sneri sér þó alveg að tónlistinni eftir að hann hætti í bankanum árið 1987. Hann var búinn að vera með hljómsveit á Hótel Borg á sunnudagskvöldum í 12 ár jafnhliða bankastarfinu, en síðan er hann hætti í bankanum hafði verið mjög mikið að gera í tónlistinni. 22. maí 1948 gekk hann að eiga eftirlifandi konu sína, Helgu Helgadóttur frá Kálfafelli í Fljótshverfi í Vestur-Skaftafellssýslu. Þau eignuðust fjögur börn, Björgu, Huldu Magneu, Sigrúnu Helgu og Trausta. Þá er ótalinn sá þáttur í fari Jóns sem merkastur er, það er tónlistargáfan sem hann hlaut í ríkum mæli í vöggugjöf.
Ferill
breytaUm fermingu var hann farinn að semja lög sem hann síðan festi sér í minni með því að spila þau á orgelið í Ásólfsskálakirkju. Þar hófst hans langi og merki tónlistarferill sem gert hefur hann þjóðkunnan. Jón var frekar dulur maður og bar ekki tilfinningar sínar á torg en kunni þó vel við sig í margmenni og naut þess að spila á harmoníku, bæði í hljómsveit og einn síns liðs. Þeir eru ófáir íslendingarnir sem hann hefur skemmt um dagana með leik sínum. Þá var hann ótrúlega afkastamikill í gerð dægurlagatexta og liggja eftir hann margir góðir textar og ljóð. Oft er vorið og ástin uppistaðan í ljóðunum og lýsir hann þar með miklum næmleika blæbrigðum tilverunnar. Til dæmis ljóðið Kvöldsigling, sem byrjar svona:
- Bátur líður út um Eyjasund,
- enn er vor um haf og land.
- Syngur blærinn einn um aftanstund,
- aldan niðar blítt við sand.
- Ævintýrin eigum ég og þú,
- ólgar blóð og vaknar þrá.
- Fuglar hátt á syllum byggja bú,
- bjartar nætur vaka allir þá.
Hann fékk viðurnefnið „bankamaður" vegna spilamennskunnar því þeir voru svo margir alnafnarir sem voru í tónlistinni. Það voru Jón bassi, Jón trompett og einn spilaði á valdhorn í sinfóníuhljómsveitinni. Þetta gat valdið ruglingi og var hann því kenndur við bankann til aðgreiningar frá hinum og þannig festist þetta nafn við hann.
Hann hafði alltaf haft áhuga á tónlistinni og var mikill tónlistaráhugi í báðum ættum. Hann spilaði á kirkjuorgel og eins bróðir hans sem auk þess stjórnaði karlakórnum Bjarma á Seyðisfirði. Einnig spilaði móðurbróðir hans á orgel. Hann var farinn að stelast í orgelið heima 10 ára gamall. Harmónikkan var samt alltaf hans aðal hljóðfæri, en í hljómsveitum hefur hann einnig spilað á hljómborð, píanó, trommur og gítar. Hann var sjálfmenntaður tónlistarmaður og það eina sem hann lærði var hjá bónda á næsta bæ, sem kenndi honum að þekkja nótur á orgel.
Hann var 14 ára þegar hann samdi fyrsta lagið. Það var lagið „Komdu í kvöld". Þá var hann að fara á milli bæja á hesti og varð takturinn til eftir tölti hestsins. Þegar hann var kominn bæjarleiðina var lagið tilbúið. Lögin samdi hann oft þegar þegar hann var að leika sér á hljóðfæri og er orðinn leiður á því sem hann var að spila. Þá fór hann að gutla eitthvað frá sjálfum sér og lögin urðu til. Nú, ef honum fannst laglínan þess virði að gera eitthvað við hana, þá samdi hann texta líka og reyndi svo að gleyma því ekki. Yfirleitt urðu lögin til fyrst og er það sennilega vegna þess að hann hafði gert svo marga texta við erlend og innlend lög frá öðrum. Oftast reyndi hann að láta textann segja einhverja sögu eða ná ákveðinni stemmningu. Hann byrjaði að spila um fermingu og má segja að hann hafi verið að spila frá því. Fyrst spilaði hann á orgel á böllum innan sveitarinnar, síðan spilaði hann á tvöfalda hnappaharmonikku og svo stækkaði þetta smátt og smátt. Mér finnst töluverður munur á skemmtunum í dag og áður.
Fyrsta lagið hans sem kom út á plötu var „Komdu niður" sungið af Soffíu og Önnu Siggu.
Heimildir
breyta1. Einn þessara texta var við lagið „Vagg og velta“ sem Erla Þorsteinsdóttir söng (sbr. Gunnar L Hjálmarsson 2001:17)