Jón Jónsson (jarðfræðingur)

Sjá aðgreiningarsíðu fyrir aðra einstaklinga sem heita Jón Jónsson.

Jón Jónsson (f. 3. október 1910Kársstöðum í Landbroti, d. 29. október 2005) var íslenskur jarðfræðingur. Hann var afkastamikill höfundur og ritaði um fræði sín í skýrslur, blöð, bækur og tímarit, bæði íslensk og erlend. Hann starfaði á sviði jarðhita og neysluvatnsrannsókna og vann brautryðjandastarf við sundurgreiningu og kortlagningu hrauna á Reykjanesskaga.

Nám breyta

Barnalærdóm og vísi að unglingafræðslu hlaut Jón Jónsson í Þykkvabæ, fór síðan 1928 að Eiðum og sat þar tvo vetur í Alþýðuskólanum. Árið 1945 settist hann að í Uppsölum og kynntist Tómasi Tryggvasyni, sem þá hafði nýlokið jarðfræðinámi þar. Í gegn um Tómas kynntist Jón fleiri jarðfræðingum og jarðfræðiprófessorum. Síðan fékk hann vinnu sem aðstoðarmaður við jarðfræðistörf og sumarið 1949 tók hann þátt í leiðangri til Grænlands undir stjórn dr. Lauge Koch[óvirkur tengill] og stundaði steingervingaleit. Starfaði svo sem rannsóknarmaður á steingervingasafninu í Uppsölum. Hann tók einnig þátt í sænskum leiðöngrum og jarðfræðirannsóknum á Hoffelssandi 1951–1952. Sumarið 1954 fór Jón til Íslands og fékk þá þann starfa að gera jarðfræðikort af Reykjavík og nágrenni með Tómasi Tryggvasyni.

Jón innritaðist í jarðfræðideild Uppsalaháskóla 1954. Það haust varð Jón 44 ára. Vorið 1958 lauk hann námi með tvöfaldri útskrift með kandidats- (fil.kand.) og licenciatpróf (fil. lic.). Lokaritgerðin fjallaði um afstöðubreytingar láðs og lagar við Ísland og um kísilþörunga í sjávarseti.

Störf breyta

Jón hóf störf á Raforkumálaskrifstofunni (síðar Orkustofnun) 1958. Framan af voru verkefni hans einkum á sviði neysluvatns- og heitavatnsöflunar. Boranir eftir heitu vatni voru þá komnar á skrið og heppnuðust víða vel undir hans tilsögn. Hann vann einnig sem jarðhitaráðgjafi í ýmsum löndum Mið-Ameríku og Afríku á vegum Sameinuðu þjóðanna og fleiri stofnana. Jón fékkst mikið við jarðfræðikortlagningu á starfsferli sínum og vann frábært brautryðjandastarf við sundurgreiningu og kortlagningu hrauna á Reykjanesskaga. Sú vinna skilaði sér á kortum og í mikilli skýrslu um hraun og jarðmyndanir á skaganum sem Orkustofnun gaf út. Árið 1980 lét Jón af störfum fyrir jarðhitadeild Orkustofnunar en hélt þó áfram eigin rannsóknum og ráðgjöf í neysluvatns- og jarðhitamálum. Á þessi skeiði beindust augu hans mjög að Eyjafjöllum og af þeim gerði hann jarðfræðikort sem út kom ásamt með ýtarlegri lýsingu 1989. Á síðustu árunum snérist áhugi hans í auknum mæli að átthögunum í Vestur-Skaftafellssýslu og hinum miklu hraunaflæmum frá Eldgjá, Lakagígum og Hálsagígum. Síðustu rannsóknarleiðangrana fór Jón á það svæði árið 2002, þá á 92. aldursári. Þótt Jón hæfi ekki jarðfræðistörf fyrr en á fimmtugsaldri spannar starfsferill hans á því sviði vel á sjötta tug ára og er lengri en flestir jarðfræðingar geta státað af.

Jón Jónsson var afkastamikill vísindamaður og ritaði um fræði sín í skýrslur, blöð, bækur og tímarit, bæði íslensk og erlend. Á 85 ára afmæli hans var gefið út bókin Eyjar í eldhafi honum til heiðurs með safni greina um náttúrufræði. Þar má finna æviágrip hans og ritalista.

Giftist 1954, Guðrúnu Guðmundsdóttur.

Heimildir breyta

  • Árni Hjartarson 2005. Jón Jónsson, jarðfræðingur, 1910-2005. Náttúrufræðingurinn 73. árg. bls. 74.
  • Björn Hróarsson, Dagur Jónsson og Sigurður Sveinn Jónsson (1995). Eyjar í eldhafi. Gott mál hf. Reykjavík.
  • Jón Jónsson 1978. Jarðfræðikort af Reykjanesskaga. Skýringar við Jarðfræðikort. OS-JHD-7831, Orkustofnun.