Ingólfstorg (áður Hallærisplanið/Hótel Íslands-planið og Steindórsplanið) er torg í miðborg Reykjavíkur. Það var opnað 4. desember 1993. Torgið er nefnt í höfuðið á Ingólfi Arnarsyni landnámsmanni. Torgið er staðsett við Aðalstræti þar sem einna lengst hefur verið byggð í Reykjavík.

Mynd af Ingólfstorgi, tekin um sumar.
Fólk að dansa á Ingólfstorgi.

Nú til dags er torgið oft notað til tónleikahalds, ræðuhalda og fjöldasamkomna af ýmsu tagi. Það er oft notað á hátíðisdögum og stórviðburðum eins og 1. maí, Menningarnótt og 17. júní. Torgið er einnig vinsælt meðal hjólabrettafólks. Eftir aldamótin 2000 hefur torginu oft verið breytt í skautasvell yfir jólahátíðina.[1]

Nafn breyta

Svæðið þar sem torgið var var upphaflega tvö bílaplön sem Austurstræti gekk á milli. Suðurhlutinn var í fyrstu nefndur Hótel Íslands-lóðin (eða Hótel Íslandsplanið). Á horni Aðalstrætis og Austurstrætis stóð hið landsfræga Hótel Ísland frá 1882 þar til það brann 1944. Eftir brunann myndaðist autt svæði við gatnamótin. Hinum megin við Austurstræti var Bifreiðastöð Steindórs frá 1922 með bílastæði, rútustopp og síðar stórt þjónustuhús. Þetta svæði var kallað Steindórsplanið. Eftir bruna Hótel Íslands notaði bifreiðastöðin lóðina þar líka undir bílastæði. Þetta bílastæði var uppnefnt „Hallærisplanið“ allt frá því um 1960, enda var litið á lóðina sem sár í bæjarlandinu. Á sjöunda, áttunda og níunda áratug 20. aldar, var Hallærisplanið staður þar sem unglingar hittust. Drykkjumenning skapaðist þar meðal þeirra og stundum greip lögreglan inn í.[2]

Eitt og annað breyta

  • Hallærisplanið: skáldsaga fyrir börn og fullorðna eftir Pál Kristinn Pálsson kom út árið 1982. Aðalsögupersónur hennar eru utangarðsunglingar í Reykjavík.

Tilvísanir breyta

  1. „TM opnar skautasvellið á Ingólfstorgi í dag“. Mbl.is. 7. desember 2006.
  2. Þegar unglingarnir söfnuðust saman á Hallærisplaninu Vísir 20/8 2023