Ingólfsfjörður er u.þ.b. 8 km langur og 1,5 km breiður fjörður á Ströndum. Fjörðurinn er á milli nesjanna Munaðarness sem er sunnan við hann og aðskilur hann frá Norðurfirði, og Seljaness sem er norðan fjarðarins og aðskilur hann frá Ófeigsfirði. Ingólfsfjörður er langur og brattar hlíðar á báða vegu.

Samkvæmt Landnámabók er fjörðurinn kenndur við sinn fyrsta ábúanda, Ingólf Herröðarson. Bræður hans, Eyvindur og Ófeigur, námu nálæga firði. Faðir þeirra, Herröður hvítaský, var líflátinn að skipan Haraldar konungs.

Álöf dóttir Ingólfs var gift Eiríki snöru sem nam land frá Ingólfsfirði til Veiðileysu en bjó í Trékyllisvík. Samkvæmt því sem segir í Landnámabók brutu Austmenn skip sitt þar en gerðu úr hræinu nýtt skip er kallað var Trékyllir og á víkin að draga nafn af því.

Eggert Ólafsson segir frá því í Ferðabók sinni að þegar hann kom í Ingólfsfjörð hafi íbúarnir orðið hræddir og hlaupið burtu en bóndinn hafði þá ekki í 16 ár farið í kaupstað en fengið járn og aðra nauðsynjavöru úr Trékyllisvík.

Heimild

breyta
  • „Ingólfsfjörður á Vestfjarðavefnum“.
   Þessi Íslandsgrein sem tengist landafræði er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.