Ófeigsfjörður er fjörður í Strandasýslu, á milli Ingólfsfjarðar að sunnan og Eyvindarfjarðar að norðan. Fjörðurinn er kenndur við Ófeig Herröðarson landnámsmann, bróður Eyvindar og Ingólfs, sona Herröðar hvítaskýs.

Fjörðurinn er nú í eyði og er þar einungis sumarábúð afkomenda Ófeigsfjarðarbænda en húsum er haldið vel við á staðnum. Í firðinum endar vegurinn norður Strandir en úr Ingólfsfirði er þó einungis sumarslóði og þarf að sæta sjávarföllum til að aka hann. Um fjörðinn liggur hin vinsæla gönguleið um Hornstrandir.

Tvær stórar ár renna í fjörðinn en það eru Húsá og Hvalá. Til stendur að virkja Hvalá en hún er mesta vatnsfall Vestfjarða. Í Hvalá er Hvalárfoss sem er slæðufoss og einn af fallegri fossum á Vestfjörðum. Það eru fremur fáir sem hafa séð fossinn þar sem vegurinn endar á hlaðinu á bænum í Ófeigsfirði. Það mun vera hægt að aka yfir Húsá á vaði og fara eftir slóða út ströndina að Hvalárfossi. Ekki er þó ráðlegt að fara þetta einbíla. Í Húsá er einnig slæðufoss sem sést vel af sjó af Húnaflóa og var fossinn fyrrum notaður sem mið af sjófarendum.

  Þessi Íslandsgrein sem tengist landafræði er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.