Iðnskólinn í Hafnarfirði

Framhaldsskóli á Íslandi

Iðnskólinn í Hafnarfirði var iðnmenntaskóli sem var rekinn frá 1928–2015 þegar hann var lagður niður og starfsemin færð undir Tækniskólann.

Iðnskólinn í Hafnarfirði
Starfandi 1928–2015
Tegund Ríkisskóli
Nemendur 500 til 600
Nemendafélag Nemendafélag Iðnskólans í Hafnarfirði

Skólinn var stofnaður 11. nóvember 1928 á fyrsta fundi Iðnaðarmannafélags Hafnarfjarðar og var skólinn rekinn sem kvöldskóli til ársins 1955. Fyrsti skólastjóri Iðnskólans var Emil Jónsson bæjarverkfræðingur, síðar forsætisráðherra. Hann gegndi stöðunni til ársins 1944. Árið 1956 urðu þau tímamót í sögu skólans að ríki og bæjarfélagið tóku við rekstri hans og var hann þá gerður að dagskóla. Þegar stofnuð var grunndeild málmiðna árið 1974 var tekin upp verkleg kennsla við skólann. Grunndeild tréiðna og verklegt nám fyrir háriðnir hófst árið 1977 og á sama tíma hófst kennsla í tækniteiknun. Síðasta grunndeildin var stofnuð 1983 með verklegri kennslu í rafiðnum. Verkdeildirnar hafa verið, og eru ennþá, kjölfesta skólastarfsins. Árið 1990 var komið á fót hönnunarbraut en henni var síðan breytt í listnámsbraut árið 1999. Almenn námsbraut tók til starfa haustið 2000.

Skólinn flutti í nýtt húsnæði í janúar árið 2000 við Flatahraun 12. Í því fólst veruleg stækkun og bylting á allri aðstöðu nemenda og kennara. Áður hafði Iðnskólinn verið á tveimur stöðum þar sem bóknám fór fram í húsnæðinu við Reykjavíkurveg og verknámið var til húsa við Flatahraun. Til að byrja með var öll aðstaða undir sama þaki en vegna mikillar aðsóknar og fjölgunar í skólanum notaðist skólinn við fleiri hús í nágrenni aðalbyggingarinnar. Þann 1. ágúst 2015 var Iðnskólinn í Hafnarfirði lagður niður og starfsemi hans færð í Tækniskólann sem er einkarekinn framhaldsskóli.

Tengill breyta


   Þessi skólagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.