Húsamaur (fræðiheiti Hypoponera punctatissima) er smávaxið skordýr 2 - 4 mm að stærð og af ættbálk æðvængna. Auðvelt er að greina húsamaur af eins konar aukalið sem þeir hafa milli bols og höfuðs. Húsamaurar eru rándýr og lifa á ýmsum tegundum smádýra. Þeir eru félagsskordýr og mynda bú með hundruðum eða þúsundum einstaklinga. Í búunum eru drottningar, vinnudýr og karldýr. Drottningin er stærst. Öll dýrin í búinu eru vængjalaus nema ófrjóvgaðar drottningar. Venjulega verður ekki vart við húsamaur nema þegar drottningar yfirgefa búin til að stofna ný. Á ákveðnum tímum árs streymir mikill fjöldi vængjaðra drottninga um húsakynnin. Bú húsamaura hafa á Íslandi aðallega fundist í holrúmum undir gólfplötum eða í biluðum skólplögnum þar sem heppileg lífsskilyrði þ.e. smádýralíf, raki og hiti er til staðar. Erfitt getur verið að eyða búum húsamaura því erfitt er að komast að þeim.

Húsamaur

Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Liðdýr (Arthropoda)
Flokkur: Skordýr (Insecta)
Ættbálkur: Æðvængjur (Hymenoptera)
Ætt: Maurar (Formicidae)
Undirætt: Ponerinae
Ættkvísl: Hypoponera
Santschi, 1938
Tegund:
Hypoponera punctatissima

Roger, 1859

Húsamaur fannst fyrst í gróðurhúsi á Íslandi árið 1956 og sást síðan ekki fyrr en árið 1974. Eftir það hefur hann breiðst út í híbýlum á Reykjavíkursvæðinu.

Heimildir

breyta
  • „Hvaða litlu, svörtu pöddur eru þetta sem sjást oft flögrandi um innandyra“. Vísindavefurinn.
  • Húsamaur (Náttúrufræðistofnun Íslands) Geymt 1 febrúar 2021 í Wayback Machine