Hundur í óskilum

Íslensk hljómsveit

Hundur í óskilum er íslensk hljómsveit skipuð þeim Hjörleifi Hjartarsyni og Eiríki G. Stephensen.

Hljómsveitin var stofnuð í Svarfaðardal árið 1994. Hjörleifur og Eiríkur leika á fjölda óvenjulegra hljóðfæra og spilar jafnt lög annarra tónistarmanna sem eigið efni í spaugilegum útsetningum. Hafa þeir félagar, sem báðir eru kennaramenntaðir, haldið fjölda tónleika og verið iðnir við að kynna grunnskólabörnum hinar fjölbreyttu hliðar tónlistarinnar. Hljómsveitin gaf út plötu árið 2002 sem hét Hundur í óskilum. Útgáfutónleikar voru haldnir á á Dómó í Reykjavík þann 15. nóvember og á Græna hattinum á Akureyri þann 29. nóvember. Seinni plata þeirra félaga nefndist Hundur í óskilum snýr aftur og kom hún út árið 2007. Hún var tekin upp á Græna hattinum í maí sama ár.

Þeir félagar í Hundinum sömdu tónlist fyrir sýningu Þjóðleikhússins á Íslandsklukkunni, sem sýnd var 2010-2011 undir stjórn Benedikts Erlingssonar, og fluttu hana sjálfir á fjölunum. Fyrir tónlistina hlotnuðust þeim Grímuverðlaunin 2010. Þeir sömdu einnig og sviðsettu leikritið Saga þjóðar sem var frumsýnt og leikið nokkrum sinnum hjá Leikfélagi Akureyrar haustið 2011 en var síðan sýnt í Borgarleikhúsinu fram á vor 2013. Leikritið hlaut Grímuverðlaun 2012. Næsta verkefni hljómsveitarinnar er leikverkið Öldin okkar sem frumsýnt var á Akureyri síðla árs 2014 undur stjórn Ágústu Skúladóttur og síðan sýnt í Borgarleikhúsinu. Nýjasta verkefni Hundsins er leikritið Kvenfólk sem frumsýnt var á Akureyri haustið 2017 einnig undir stjórn Ágústu Skúladóttur. Það var síðan sýnt í Borgarleikhúsinu 2018-2019.