Huda Sharawi
Huda Sharawi (23. júní 1879 - 12. desember 1947) var egypskur kvenréttindasinni, þjóðernissinni og stofnandi Kvenréttindafélags Egyptalands.
Æviágrip
breytaHuda Sharawi fæddist inn í El-Sharawi fjölskylduna í Efra-Egyptalandi, en faðir hennar var fyrsti forseti Egypska fulltrúaráðsins. Huda ólst að mestu leyti upp í kvennabúri/kvenálmu þar sem konur voru einangraðar og skyldugar til að vera með slæður. Huda fékk góða menntun frá ungaaldri, fékk góða kennslu í hinum ýmsu fögum og talaði meðal annars frönsku, tyrknesku og arabísku ásamt því að læra hluta úr Kóraninum.[1]
Hjónaband
breytaÞegar Huda var 13 ára komst hún að því að hún ætti að giftast frænda sínum, Ali Pasha Sharawi, sem var mikið eldri en hún. Hjónaband þeirra einkenndist af einhliða stjórn Ali, m.a. bannaði hann Hudu að spila á píanó og að heimsækja ættingja. Huda skildi við hann að borði og sæng eftir 15 mánaða hjónaband í kjölfar brots hans á samningi í tengslum við hjónabandið.[2] Næstu 7 ár var Huda nokkurn veginn frjáls. Hún bætti við þekkingu sína, m.a. í arabískum bókmenntum og lærði ljóðlist og á píanó. Einnig fór hún sjálf að versla, sem þótti mjög sjaldgæft fyrir konu að gera, og hvatti móður sína til að gera slíkt hið sama.[3]
Kvenréttindi
breytaEftir 7 ára aðskilnað frá eiginmanni sínum fór Huda með honum til Parísar, þar sem hún uppgötvaði nýjan heim með konum sem gengu frjálsar um götur borgarinnar.[3] Huda var mjög á móti þeim hömlum sem konum voru settar í kvenálmum. Hún fór því að skipuleggja fyrirlestra fyrir konur sem myndi ýta þeim út úr húsi og á almannafæri. Árið 1919 tók Huda þátt í að skipuleggja ein stærstu kvenmótmæli gegn stjórn Breta í Egyptalandi.[1]
Huda hugsaði sífellt um hvernig hægt væri að bæta líf kvennana í kringum hana. Hún stakk því upp á að komið yrði á fót skóla með sjúkrastofu fyrir þær, og með ýmsum framlögum og fjáröflunum varð sú hugmynd að veruleika. Einnig fannst henni að hvetja þyrfti konur í sinni vitsmunalegu ástund og í apríl 1914 var Intellectual Association of Egyptian Women stofnað.[3]
Árið 1923 stofnaði Huda Kvenréttindafélag Egyptalands, sem er ennþá starfandi í dag. Félagið einblíndi á ýmis mál, m.a. kosningarétt kvenna og menntun þeirra. Hún leiddi félagið fram til seinasta dags.[1]
Eftir andlát eiginmanns síns 1922 hætti Huda að ganga með slæðu, það þótti marka tímamót í kvenréttindabaráttu í Mið-Austurlöndum.[1][4]
Mannúðarstörf
breytaÁrið 1909 stofnaði Huda Sharawi fyrstu mannúðarsamtökin sem rekin voru af konum, en samtökin buðu upp á þjónustu fyrir fátækar konur og börn. Huda trúði því að með því að konur rækju svona samtök myndi það ögra þeirri hugmynd að konur væru einungis skapaðar fyrir nautn karlanna og þyrftu vernd þeirra.[1]
Tilvísanir
breyta- ↑ 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 Engel, KeriLynn, „Huda Shaarawi, Egyptian feminist & activist“, amazingwomeninhistory.com 12. nóvember 2012. Sótt 18. febrúar 2019.
- ↑ Women in World History 14. bindi. Ritstýrt af Anne Commire (Waterford 2001), bls. 184.
- ↑ 3,0 3,1 3,2 Women in World History 14. bindi. Ritstýrt af Anne Commire (Waterford 2001), bls. 185.
- ↑ Magnús Þorkell Bernharðsson, Mið-Austurlönd. Fortíð, nútíð og framtíð. (Reykjavík 2018), bls. 150.