Fyrir kvikmynd Friðriks Þórs, sjá Hringurinn (kvikmynd).

Hringurinn er kvenfélag sem var stofnað 26. janúar 1904 í Reykjavík. Í upphafi var markmið félagsins að safna fé til aðstoðar berklaveiku fólki en síðustu áratugi hafa helstu verkefni Hringsins snúið að bættum aðbúnaði veikra barna. Félagið beitti sér fyrir stofnun barnaspítala á Íslandi og er Barnaspítali Hringsins því nefndur eftir félaginu.[1]

Aðdragandann að stofnun Hringsins má rekja til Kristínar Vídalín Jacobson en hún hafði veikst af berklum sem ung stúlka og á meðan hún lá á sjúkrahúsi í Danmörku hét hún því að næði hún heilsu á ný myndi hún leggja sitt af mörkum til bæta aðbúnað fátækra berklasjúklinga. Kristín efndi þetta heit sitt og boðaði til stofnfundar í Iðnó við Vonarstræti í Reykjavík þann 26. janúar 1904. Stofnfélagar Hringsins voru 45 konur en Kristín varð fyrsti formaður félagsins og veitti því formennsku í 39 ár.[2][3]

Hressingarhæli fyrir berklasjúklinga breyta

Á fyrstu árum félagsins var helsta verkefni þess að bæta hag fátækra berklasjúklinga. Á þessum árum var mikill skortur á úrræðum fyrir berklasjúklinga og úr varð að Hringskonur settu á laggirnar það sem þá var kallað hressingarhæli fyrir berklasjúklinga og gátu þeir dvalist þar að lokinni sjúkrahúsdvöl eða þangað til fullum bata var náð. Hælið var til húsa í Kópavogi og tók til starfa árið 1926 og var reksturinn í höndum Hringsins allt til ársins 1940 er Hringurinn gaf ríkinu húsnæðið ásamt öllum innanstokksmunum.[1]

Barnaspítali Hringsins breyta

Árið 1942 ákváðu Hringskonur að breyta áherslum í starfi sínu og varð velferð sjúkra barna í fyrirrúmi. Hringskonur settu sér það markmið að barnaspítali yrði settur á laggirnar hér á landi. Það reyndist þungur róður en úr varð að sérstök barnadeild var opnuð á Landspítalanum árið 1957. Árið 1965 tók svo Barnaspítali Hringsins til starfa á Landspítalanum. Barnaspítalinn bjó lengi við þröngan húsakost en á 80 ára afmæli Hringsins árið 1984 ákváðu Hringskonur að beita sér að fullum krafti fyrir því að nýr sérhannaður barnaspítali yrði reistur á lóð Landspítalans við Hringbraut og miðaðist starfsemi félagsins að því að afla fjármuna til að draumurinn gæti orðið að veruleika. Markmiðið náðist og á 99 ára afmæli Hringsins þann 26. janúar 2003 var nýtt húsnæði Barnaspítala Hringsins formlega tekið í notkun.

Tilvísanir breyta

  1. 1,0 1,1 Minjastofnu.is, „Hressingarhælið í Kópavogi“ Geymt 19 júní 2020 í Wayback Machine, (skoðað 16. júní 2019)
  2. Hringurinn.is, „Saga Hringsins“ Geymt 10 febrúar 2021 í Wayback Machine, (skoðað 16. júní 2019)
  3. „Að líkna veikum börnum er eins og að rækta fagurt blóm“, Morgunblaðið, 8. desember 2002, (skoðað 16. júní 2019)