Hringnót
Hringnót er einnig nefnd herpinót eða snurpunót. Hringnætur eru stærstu veiðarfæri sem notuð eru á Íslandsmiðum hvað þyngd og umfang varðar, meðalsíldarnót er um 40 tonn. Þær eru mest notaðar við veiðar á loðnu og síld en undanfarin ár má segja að tveir þriðju hlutar aflamagns af íslenskum miðum hafi komið í hringnót. Mest af aflanum fer til lýsis- og mjölframleiðslu, en nú á dögum er reynt að hámarka aflaverðmætið með því að frysta hann annaðhvort út á sjó eða í landi.
Hringnót er netgirðing sem lögð er hringinn í kringum fiskitorfu. Hringnót samanstendur úr aflöngum netstykkjum úr næloni sem eru saumaðar saman lóðrétt og mynda mjög stórt net. Meðalsíldarnót er 550 m löng og 180 m djúp. Á efri brún netsins eru flot sem halda netinu á floti og við neðri brún netsins er teinn sem á eru festar blýsökkur til að þyngja netið. Einnig eru snurpuhringir festir á neðri brún netsins og í gegnum þá þræddur snurpuvír. Netið er lagt utan um torfuna og neðri teinninn látinn síga til að komast niður fyrir torfuna. Nótinni er lokað að neðan með því að hífa snurpuvírinn inn. Því næst er annar endi nótarinnar dreginn inn í skipið og minnkar þá nethringurinn þar til aðeins lítill netpoki er við hliðina á skipinu og í honum liggur fiskurinn. Fisknum er svo dælt upp í skipið með svokallaðri fiskidælu. Hringnótin er einnig afkastamesta veiðarfærið við Ísland, þ.e.a.s. tekur mestan afla.
Heimildir
breyta- Guðni Þorsteinsson (1980). Veiðar og veiðarfæri. (Reykjavík: Almenna bókafélagið).