Hrakfallaferð til Feluborgar
Hrakfallaferð til Feluborgar (franska: Les pirates du silence) eftir höfundinn og teiknarann Franquin er tíunda bókin í bókaflokknum um Sval og Val. Maurice Rosy var titlaður meðhöfundur. Bókin kom út árið 1958, en sögurnar sem hún hefur að geyma birtust í teiknimyndablaðinu Sval á árunum 1955-56. Árið 1977 varð hún fyrsta Svals og Vals-bókin sem gefin var út á íslensku.
Söguþráður
breytaÍ aðalsögu bókarinnar segir frá ferð félaganna Svals og Vals til Feluborgar, þar sem milljónamæringar og kvikmyndastjörnur lifa í munaði, laus við hnýsna blaðamenn og ágenga ljósmyndara. Valur er í leynilegum erindagjörðum og hyggst skrifa frétt um hið skringilega samfélag. Ljósmyndavélar eru bannaðar í Feluborg, en Valur felur örsmáar myndavélar í pípunni sinni og úrinu.
Áður en lagt er af stað birtist gormdýrið óvænt heima hjá þeim félögum og virðist hafa strokið frá Sveppagreifanum. Svalur og Valur taka gormdýrið og íkornann Pésa með sér í ferðalagið, óafvitandi um að Sveppagreifanum hefur verið rænt.
Á leiðinni rekast þeir á auðkýfinginn hr. Jón Kurteiz (Juan Corto dos Orejas y Rabo), sem kemur þeim undarlega fyrir sjónir. Í ljós kemur að Jón Kurteiz er leiðtogi í glæpaflokki sem rænt hefur Sveppagreifanum og þvingað hann til að búa til gas sem svæfir íbúa Feluborgar. Svalur og Valur frelsa greifann og stöðva bíræfið bankarán glæpamannanna. Þrátt fyrir hetjudáðina verða þeir að yfirgefa bæinn í skyndi með lögregluna á hælunum þegar gormdýrið ljóstrar upp um földu myndavélarnar.
Aukasaga bókarinnar nefnist Valur á tryllitækinu (franska: La Quick super). Þar fá Svalur og Valur það verkefni að prófa glæsikerru, en nokkrum bílum sömu gerðar hafði verið stolið við dularfullar kringumstæður. Svalur flettir ofan af þjófnum sem reynist vera dvergur.
Fróðleiksmolar
breyta- Svalur og Valur eru sambýlingar í sögunni, en af fyrri bókum sagnaflokksins mátti ráða að þeir byggju hvor í sinni íbúðinni. Í seinni sögum hafa félagarnir búið saman, þó með fáeinum undantekningum.
- Í bókinni er ljóstrað upp um þann eiginleika gormdýrsins að geta lært og endurtekið einfaldar setningar á mannamáli.
- Í aukasögunni, Valur og tryllitækið, koma við sögu starfsmenn fjölleikahúss sem hafði stóru hlutverki að gegna í Svals og Vals-bókinni Les voleurs du Marsupilami.
Íslensk útgáfa
breytaHrakfallaferð til Feluborgar var gefin út af Iðunni árið 1977 í íslenskri þýðingu Geirlaugar Þorsteinsdóttur. Þetta var fyrsta íslenska Svals og Valsbókin og má segja að lesendum hafi verið hent út í djúpu laugina með því að byrja í miðjum bókaflokki og án sérstakrar kynningar á persónunum.