Honorius Augustodunensis
Honorius Augustodunensis (einnig þekktur sem Honorius frá Autun) var vinsæll kristinn guðfræðingur og heimspekingur á fyrri hluta 12. aldar.
Fæðingar- og dánarár hans eru óþekkt en oftast er talið að hann hafi fæðst um 1080 og dáið skömmu eftir miðbik 12. aldar eða um 1151. Lítið er vitað um ævi hans umfram það sem stendur í verkum hans, en þar kemur fram að hann var munkur sem ferðaðist til Englands og var þar hjá Anselm í Kantaraborg. Undir lok ævi hans bjó hann í Skotaklaustri í Regensburg í Þýskalandi.
Honorius ritaði mörg verk um aðskiljanlegustu efni í aðgengilegum og alþýðlegum stíl. Hann var afkastamikill höfundur og skrifaði á latínu eins og tíðkaðist hjá lærðum mönnum á miðöldum. Verkin hans náðu töluverðri útbreiðslu hjá leikmönnum og voru m.a. þýdd á frönsku og þýsku.
Þekktasta rit hans er líklega Elucidarius, yfirlit yfir trúaratriði kristninnar í samtalsformi. Þýðing á forníslensku hefur varðveist í nokkrum handritum, m.a. í Hauksbók frá 1302 - 1310. Útgáfu á norrænni þýðingu á Elucidariusi er að finna í Gunnar Harðarson (ritstj.), Þrjár þýðingar lærðar frá miðöldum, Reykjavík, Hið íslenska bókmenntafélag, 1989.