Orðastafróf

(Endurbeint frá Hljóðstafakerfi)

Orðastafróf, hljóðritunarstafróf eða hljóðstafakerfi er kerfi þar sem orð eru látin tákna stafi í stafrófi. Dæmi um þetta eru stafaheiti (B heitir til dæmis „bé“ í íslensku, „bee“ í ensku og „bi“ í ítölsku). Algengara er að nota hugtakið um ýmis kerfi til að tákna stafi þar sem hætta er á misskilningi vegna truflana í samskiptamiðlinum sem notaður er, eins og þegar kallað er til fjarlægra aðila eða í talstöðvarsamskiptum. Fjarskiptamenn í breska hernum hófu að nota slíkt kerfi yfir erfiðustu stafina í enska stafrófinu seint á 19. öld. Þannig var „Ack“ notað til að stafa „A“, og „eMma“ notað fyrir „M“. Breski flugherinn tók upp staðlað kerfi orða fyrir alla 26 stafi enska stafrófsins árið 1921. Bandaríski flugherinn hafði gert það sama frá 1918. Auk þess voru slík stafróf í notkun í borgaralegri starfsemi eins og á kaupskipum og í póstþjónustu. Kerfin voru því mörg og ólík, en byggðust á sömu hugmynd: að nota orð til að tákna stafi í stafrófinu.

Árið 1956 þróaði Alþjóðaflugmálastofnunin alþjóðlegt hljóðstafakerfi sem í dag er einnig notað í Alþjóðlegu merkjabókinni („Alfa“, „Bravo“, „Charlie“...). Önnur algeng hljóðstafakerfi eru eldra kerfi Alþjóðafjarskiptasambandsins sem notast við örnefni og er oft notað af radíóamatörum („Amsterdam“, „Baltimore“, „Casablanca“...), og ýmis kerfi sem byggjast á mannanöfnum. Slíkt nafnakerfi er meðal annars notað til að nefna reitina í skák („Alfreð“, „Bjarni“, „Ceres“...).

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.