Alþjóðafjarskiptasambandið

Alþjóðafjarskiptasambandið (International Telecommunication Union eða ITU) er ein af aðildarstofnunum Sameinuðu þjóðanna sem fæst við upplýsinga- og fjarskiptatækni. Stofnunin var stofnuð árið 1865 sem Alþjóðlega ritsímasambandið og er því ein af elstu alþjóðstofnunum heims sem enn eru við lýði.

Alþjóðafjarskiptasambandið
International Telecommunication Union
Fáni Alþjóðafjarskiptasambandsins
SkammstöfunITU
Stofnun1865; fyrir 159 árum (1865)
HöfuðstöðvarFáni Sviss Genf, Sviss
AðalritariHoulin Zhao
MóðurfélagSameinuðu þjóðirnar
Vefsíðawww.itu.int

Upphaflegur tilgangur sambandsins var að tengja ritsímakerfi milli landa. Hlutverk þess hefur vaxið eftir því sem samskiptatækni hefur þróast. Sambandið tók núverandi nafn upp árið 1934 en þá höfðu talstöðvar- og símasamskipti bæst við sem viðfangsefni þess. Þann 15. nóvember 1947 gerði sambandið samkomulag við hinar nýstofnuðu Sameinuðu þjóðir um að gerast ein af aðildarstofnunum þeirra. Það tók formlega gildi 1. janúar 1949.

Alþjóðafjarskiptasambandið hefur eftirlit með alþjóðlegri notkun fjarskiptatíðnisviðsins, hefur milligöngu um samvinnu um gervihnattaferla, tekur þátt í þróun tæknilegra staðla og vinnur að bættum fjarskiptainnviðum í þróunarlöndum. Það fæst líka við breiðbandsnet, þráðlausa samskiptatækni, leiðarkerfi í flugi og siglingum, útvarpsstjörnufræði, veðurathuganir um gervihnött, sjónvarpsútsendingar og næstu kynslóðar net.

Aðildarríki Alþjóðafjarskiptasambandsins eru 193 talsins, auk um 900 fyrirtækja og stofnana. Ísland varð sjálfstæður aðili að sambandinu þegar landið varð sjálfstætt ríki árið 1918.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.