Alþjóðlega merkjabókin
Alþjóðlega merkjabókin er alþjóðlegur staðall fyrir merkjagjöf sem notaður er á skipum og sumum öðrum farartækjum fyrir mikilvæg skilaboð varðandi neyðartilvik, öryggi og fleira. Alþjóðasiglingamálastofnunin sér um útgáfu bókarinnar. Merkjagjöfin getur farið fram með merkjafánum, ljósmerki, handflöggum eða gegnum talstöð (með hljóðstafakerfi) eða þráðlausan ritsíma (með Morse-kóða). Alþjóðlega merkjabókin var fyrst lögð fram af Breska viðskiptaráðinu árið 1857 og tók við af nokkrum merkjakerfum sem höfðu þróast víða um heim á fyrri öldum.
Í merkjakerfinu eru 26 bókstafir enska stafrófsins, tíu tölustafir auk fjögurra sértákna, tengdir við tiltekna merkjafána. Merkin geta verið einn, tveir eða þrír stafir að lengd. Þýðing þessara merkja er stöðluð fyrir níu tungumál (ensku, frönsku, ítölsku, þýsku, japönsku, spænsku, norsku, rússnesku og grísku). Þannig skiptir ekki máli hvert af þessum tungumálum sendandi og viðtakandi skilja ef báðir eru með sömu merkjabókina.
Dæmi um merki eru „A“ (Alpha), „kafari að störfum við skipið“; „DX“ (Delta Xray) „ég er að sökkva“; og „MAA“ (Mike Alpha Alpha) „ég þarf læknisaðstoð strax“.