Hjörtur Þórðarson

Hjörtur Þórðarson (Chester H. Thordarson) (1867 – 1945) var vestur-íslenskur rafmagnsverkfræðingur og uppfinningamaður. Hann fékk mörg einkaleyfi á sínum tíma, eins og til dæmis fyrir kveikispólum sem notaðar eru í bíla. Hann rak spennaverksmiðju í Chicago fram til kreppunnar 1930 sem hafði á að skipa 1500 – 1800 starfsmönnum. Hjörtur lét reisa sér veglegt sumarhús á Klettaeyju (Rock Island) í Wisconsin í Bandaríkjunum. Það er núna í eigu Wisconsin DNR sem keypti húsið af erfingjum Hjartar árið 1965.

Ævi breyta

Hjörtur flutti til Bandaríkjanna árið 1873 (6 ára gamall) og stofnaði árið 1895 Thordarson Electric Manufacturing Company, verksmiðju sem framleiddi spennubreyta. Hann starfaði lengi við raforkudreifikerfi, gerði margar uppfinningar á því sviði og átti einkaleyfi á spennum fyrir rafdreifikerfi. Hann gerði fyrsta 500 þúsund volta spenninn og fyrsta milljón volta spenninn sem báðir voru notaðir á sýningum. Hann starfaði með Edison, Tesla, og Ford svo einhverjir séu nefndir. Hann endurbætti uppfinningar og sjálfur fann hann upp fyrstu kveikispóluna sem virkaði í bíla. Verksmiðja Hjartar framleiddi mikið af þessum kveikispólum í Ford bíla. Hann átti að minnsta kosti 200 einkaleyfi fyrir ýmiskonar búnað til að búa til og framleiða rafspenna og spólur auk einkaleyfa á spennunum og spólunum sjálfum, allt hans eigin uppfinningar.

Hjörtur og kona hans Júlíana efnuðust vel á rekstri spennaverksmiðjunnar auk stórrar saumastofu sem Júlíana rak. Reksturinn gekk vel fram til kreppuáranna um 1930. Kröfuhafar tóku yfir rekstur fyrirtækisins en Hjörtur hélt eftir bókasafni sínu ásamt nægu fé til að framfleyta sér og sínum.

Hjörtur átti veglegt bókasafn. Háskólinn í Wisconsin erfði bókasafnið, áætlað hefur verið að virði þess hafi verið 1,6 milljarður íslenskra króna reiknað á verðgildi ársins 2018.[1][2]

Tilvísanir breyta

  1. „Thordarson Collection“. Board of Regents of the University of Wisconsin System. Sótt 25. apríl 2016.
  2. U.W. Library News, March 1966

Tenglar breyta