Hjálp:Um hvað skal skrifa
Þú hefur líklega ratað inn á þessa handbókarsíðu vegna þess að þú vilt hjálpa til við uppbyggingu Wikipedia á íslensku. En um hvað ættirðu að skrifa … hvar skal leikurinn hafinn?
Það er ágætis byrjun að skrifa um eitthvað sem stendur þér nærri, áhugamál þín eða sérsvið. Ef einhver annar hefur þegar skrifað um eitthvað sem þú vildir skrifa um er tilvalið að lesa þær greinar rækilega yfir, og bæta við eða lagfæra eftir fremsta megni. Þess ber þó að gæta að greinarnar verði ekki of langar og að ekki sé dvalið of lengi við smáatriði. Ef grein er orðin óþarflega löng getur verið gott að skipta efni hennar í undirgreinar og hafa aðeins stutt yfirlit um hvert atriði í aðalgreininni.
Á Wikipedia má finna mikinn fróðleik. Einn helsti ókosturinn við alfræðiritið er hins vegar sá að oft er lítið að finna um „leiðinleg“ efni, eða þau sem njóta ekki útbreiddrar lýðhylli. Til þess að Wikipedia geti staðið undir nafni sem alfræðirit þarf hins vegar einhver að skrifa það. Ef þú ert í skóla er eitt af því sem þú getur gert að skrifa um eitthvað sem þú hefur lært í skólanum, nú eða einhvers staðar annars staðar. Reyndu að vera viss um að þú farir rétt með staðreyndir og vertu ekki of fljótfær. Ef svo vill til að í greinarnar þínar slæðist staðreyndavillur, má gera ráð fyrir að einhver leiðrétti þær síðar, en það getur liðið langur tími þangað til. Ef þú skrifar til dæmis um námsefnið sem verið er að fara yfir í skólanum hjá þér, geturðu síðar notað greinarnar til upprifjunar fyrir próf, í ritgerðasmíð eða eitthvað annað gagnlegt. Þannig geturðu notað Wikipedia til að hjálpa þér við námið um leið og þú hjálpar til við að byggja upp alfræðiorðabók aðgengilega öllum á Netinu.
Það á samt ekki allt efni heima á Wikipediu. Engar reglur eru til um hvaða efni telst nægilega markvert til þess að verðskulda grein um sig í alfræðiriti en hér eru þó nokkur góð ráð um markvert efni. Hér má auk þess finna fáein atriði til viðbótar sem ágætt er að hafa í huga áður en þú semur fyrstu greinina þína.
Allt sem skrifað er á Wikipedia er birt undir Creative Commons Tilvísun-DeilaEins 3.0 óstaðfært (CC BY-SA 3.0) eða GFDL Frjálsa GNU handbókarleyfinu (GNU Free Documentation License). Það þýðir að hver sem er má nota textann sem hér er skrifaður undir skilmálum þess leyfis. Allir geta afritað textann og gefið hann út, eða breytt honum að vild. Þegar þú skrifar greinar á Wikipedia gengurðu að þessum skilmálum. Ekki birta neitt hér sem er verndað með höfundarétti og þú hefur ekki leyfi til að birta undir skilmálum Frjálsa GNU handbókarleyfisins.
Til eru nokkrir listar sem þú getur litið yfir og fundið greinar sem þarfnast bóta:
- Listi yfir stubba – Stubbar eru stuttar greinar sem ná ekki að gera umfjöllunarefni sínu næg skil. Til eru um 4.000 greinar sem eru merktar sem stubbar. Á þessari síðu eru líka til undirflokkar, ef þú hefur gaman af jarðfræði skaltu líta á listann yfir jarðfræðistubba, ef þú veist sitthvað um sögu geturðu litið á listann yfir sögu- og fornfræðistubba.
- Á listanum yfir greinar sem þarfnast hreingerninga eru greinar sem þarf að hreinsa, oft vegna þess að þær eru skrifaðar í stíl sem hæfir ekki alfræðiorðabók.
- Listi yfir stystu greinarnar á Wikipediu inniheldur margar óspennandi ártala-síður, en líka ýmsar örsuttar greinar sem þarfnast lagfæringa.
- Á listanum yfir nýlegar breytingar geturðu séð hvaða greinar aðrir Wikipedia-notendur eru að vinna í. Skemmtilegt getur verið að fylgjast með listanum og geta jafnóðum unnið saman að því að gera góðar greinar.
- Á listanum yfir eftirsóttar síður sérðu þær greinar sem að margar aðrar greinar vísa á en hafa ekki enn verið skapaðar.
- Listarnir yfir greinar sem ættu að vera til eru listar yfir allar þær greinar sem alfræðiriti eins og Wikipediu ber að innihalda. Flestar af þessum greinum eru nú þegar til, en með því að skoða þessa lista ættirðu að geta fundið mikilvægar greinar sem kitla áhuga þinn.
Hvernig á að skrifa góða grein?
breytaÞegar þú hefur ákveðið um hvað þú vilt skrifa, þarftu að koma efninu frá þér á sómasamlegan hátt. Góð grein er fræðandi, hnitmiðuð, með réttum upplýsingum og helst eins hlutlaus og hægt er. Ef grein fjallar um málefni sem miklar deilur standa um, þá er hægt að reyna að kynna staðreyndir málsins á eins hlutlausan hátt og unnt er, og/eða kynna sjónarmið sem flestra án þess að gera upp á milli þeirra.
Ekki er hægt að búast við að allir séu snillingar í málfræði og stafsetningu. Þó geta allir nýtt sér málfræðihandbækur, orðabækur og stafsetningarorðabækur ef þeir eru í vafa. Sumir notendur Wikipedia eru smámunasamir í þessum efnum og fara ítarlega yfir texta annarra til að bæta ásjón Wikipedia. Þannig má líka nota Wikipedia til að þjálfa sig í að skrifa góðan og hnitmiðaðan texta, og fylgjast svo með því hvað aðrir gera athugasemdir við. Ef sérstök ástæða er fyrir hendi gæti þó stundum verið gott ef einhver annar en höfundur greinarinnar læsi hana yfir áður en hún er birt á Wikipedia. Einnig er mælt með því að notaður sé takkinn „Forskoða“ áður en greinar eru birtar til að tryggja að allt sé eins og það á að vera.