Herleiðin
Herleiðin eða Uxaleiðin (danska: Hærvejen, þýska: Ochsenweg) er vegur sem liggur eftir endilöngu Jótlandi í Danmörku. Hluti leiðarinnar í Slésvík nefndist Herleiðin (Heerweg) og vísar til þess að hægt var að flytja her eftir leiðinni. Um 1930 var farið að nota heitið yfir alla leiðina en bæði hún og hlutar hennar hafa heitið ýmsum nöfnum í gegnum tíðina. Vegurinn er þekktur frá miðöldum en er hugsanlega miklu eldri. Hann fylgir nokkurn veginn eftir vatnaskilunum á Jótlandshryggnum. Þar af leiðandi eru fáar ár og mýrar sem þarf að fara yfir á leiðinni.
Frá 8. áratug 20. aldar hefur verið vinsælt að ganga, hjóla og ríða Herleiðina. Gerðar hafa verið tilraunir til að markaðssetja leiðina með tengingu við gömlu pílagrímaleiðirnar í norður til Niðarósdómkirkju í Noregi og suður til Santiago de Compostela.