Hella
Hella er þéttbýlisstaður í Rangárþingi ytra í Rangárvallasýslu, 94 kílómetra frá Reykjavík. Kauptúnið stendur á eystri bakka Ytri-Rangár, við brúna þar sem Suðurlandsvegur liggur yfir ána. Íbúar Hellu eru um 900 og í Rangárþingi ytra eru þeir um 1900.
Á Hellu byggist atvinnulífið að mestu upp á þjónustu við landbúnað, en þar má finna stórgripasláturhús, kjötvinnslu, kjúklingasláturhús og samliggjandi kjötvinnslu, dýralæknamiðstöð, útungunarstöð, bifreiðaverkstæði, rafverkstæði, trésmiðjur og ýmsa aðra smærri þjónustuaðila við landbúnað.
Á Hellu er einnig matvöruverslun, veitingastaðir, hótel og gistiheimili, hjúkrunar- og dvalarheimili, sundlaug, þvottahús, heilsugæsla, glerverksmiðja, fiskvinnsla og fiskbúð, kjötvinnsla og kjötbúð, gjafavöruverslun, sundlaug, banki, pósthús, tjaldstæði, apótek, hjólbarðaverkstæði, bensínstöð, íþróttahús, grunn- og leikskólar auk ýmiskonar annarrar þjónustu og stofnanir. Þá eru ráðhús og þjónustumiðstöð sveitarfélagsins á Hellu.
Hella fór að byggjast upp árið 1927, þegar Þorsteinn Björnsson reisti verslunarhús við brúna yfir Rangá, í landi jararinnar Gaddstaða. Þessum frumbyggja Hellu var reistur minnisvarði á árbakkanum á 50 ára byggðarafmæli kauptúnsins árið 1977. Hann rak þó ekki verslun sína nema í 8 ár því að 1935 keypti Kaupfélagið Þór verslunina af honum og byggði síðan upp ýmsa þjónustustarfsemi og iðnað á Hellu.
Þorpið er byggt út úr jörðunum Gaddstöðum, Helluvaði og Nesi á Rangárvöllum.
Mikill vöxtur varð í þorpinu á sjöunda áratugnum þegar fjölmargir þeirra sem störfuðu við uppbyggingu virkjana á svæðinu byggðu sér hús á svæðinu og settust að. Eftir það var vöxturinn hægari fram yfir aldamótin en eftir það hefur verið nokkuð stöðugur vöxtur í þorpinu með byggingu nýrra íbúða á hverju ári.
Á Hellu er eitt þekktasta hestaíþróttasvæði á landinu, Gaddstaðaflatir eða öðru nafni Rangárbakkar. Á svæðinu eru keppnisvellir fyrir hestaíþróttir og þar er einnig reiðhöll. Þar hafa verið haldin sex landsmót hestamanna árin 1986, 1994, 2004, 2008, 2014 og 2022.