Helena Petrovna Blavatsky (rússneska: Jelena Petrovna Blavatskaja, fædd von Hahn; úkraínska: Olena Petrivna Blavatska; 12 ágúst 1831–8. maí 1891) var rússneskur rithöfundur sem stofnaði Guðspekifélagið árið 1875. Hún eignaðist fylgjendur víða um heim sem helsti kenningasmiður guðspekinnar.

Helena Blavatsky

Blavatsky fæddist inn í aðalsfjölskyldu af blönduðum rússnesk-þýskum ættum í Jekaterínóslav, þá í rússneska heimsveldinu (nú Dnipro í Úkraínu). Hún ferðaðist víða um Rússaveldi sem barn. Hún var að mestu sjálfmenntuð og fékk áhuga á vestrænni dulspeki á unglingsárunum. Samkvæmt fullyrðingum hennar síðar meir fór hún árið 1849 í fjölda langferða og heimsótti Evrópu, Ameríku og Indland. Hún hélt því einnig fram að á þessu tímabili hafi hún kynnst hópi vitringa, „meisturum hinnar fornu visku“, sem sendu hana til Shigatse í Tíbet, þar sem hún hlaut þjálfun í að öðlast dýpri skilning á samruna trúarbragða, heimspeki og vísinda. Bæði gagnrýnendur hennar samtíma og síðari ævisöguritarar hafa haldið því fram að sumar eða allar þessar ferðir hafi verið tilbúningur og að hún hafi varið þessu tímabili í Evrópu. Snemma á áttunda áratugnum tók Blavatsky þátt í spíritistahreyfingunni. Þrátt fyrir að verja raunverulega tilvist spíritískra fyrirbæra, var hún ósammála hugmyndum spíritista um að þeir sem samband næðist við væru andar látins fólks. Hún flutti til Bandaríkjanna árið 1873, vingaðist við Henry Steel Olcott og vakti athygli almennings sem miðill, en var líka ásökuð opinberlega um svik.

Árið 1875 stofnaði Blavatsky Guðspekifélagið í New York-borg ásamt Olcott og William Quan Judge. Árið 1877 gaf hún út Isis Unveiled, bók sem útlistaði guðspekilega heimssýn hennar. Blavatsky tengdi hana náið við dulspekilegar kenningar hermetíkur og nýplatónskrar heimspeki. Hún lýsti guðspeki sem „samruna vísinda, trúarbragða og heimspeki“ og lýsti því yfir að hún væri að endurvekja „forna visku“ sem lægi öllum trúarbrögðum heims til grundvallar. Árið 1880 fluttu hún og Olcott til Indlands, þar sem félagið átti í tengslum við Arya Samaj, sem var umbótahreyfing meðal hindúa. Sama ár, meðan hún var í Seylon, urðu hún og Olcott fyrsta fólkið frá Bandaríkjunum sem snerist opinberlega til búddisma. Þrátt fyrir að breska nýlendustjórnin væri þeim andsnúin breiddist guðspekin hratt út á Indlandi, en þau lentu í vandræðum eftir að Blavatsky var sökuð um að búa til yfirskilvitleg fyrirbæri með svikum. Heilsu hennar hrakaði og hún sneri aftur til Evrópu árið 1885 og stofnaði þar Blavatsky-stúkuna í London. Hún gaf þar út bókina The Secret Doctrine, athugasemdir við það sem hún hélt fram að væru forn tíbetsk handrit, auk tveggja annarra bóka, The Key to Theosophy og The Voice of the Silence. Hún lést úr inflúensu.

Blavatsky var umdeild á meðan hún lifði. Stuðningsmenn hennar litu á hana sem upplýstan speking, en gagnrýnendur hæddu hana sem loddara. Guðspekilegar kenningar hennar höfðu áhrif á útbreiðslu hugmynda hindúa og búddista á Vesturlöndum sem og þróun strauma innan vestrænnar dulspeki, eins og aríósófíu, mannspeki og nýaldarhreyfinguna.