Geimverusagan

(Endurbeint frá Heili í krukku)

Geimverusagan eða sagan um heila í krukku er saga sem er ætlað að vekja heimspekilegar hugleiðingar um eðli raunveruleikans, þekkingar, merkingar, sannleikans og hugsana. Sagan hefur verið til í ýmsu formi og er oftast rakin til René Descartes og dæmis hans um illan anda, sem gerir hvað sem er til að plata mann, en nýlegri útgáfu sögunnar um heila í krukku má rekja til bandaríska heimspekingsins Hilarys Putnam. Geimverusagan er eitthvað á þessa leið:

„Að næturlagi komu geimverur og rændu þér. Á meðan þú varst enn í fasta svefni, tóku þær heilan úr höfðinu á þér og settu í krukku með næringarefnum. Þeir tengdu allar taugar við ofurtölvu, sem getur framkallað taugaboð, sem líkja eftir venjulegu áreiti í náttúrunni, og býr til fullkominn sýndarveruleika, svo ekki er hægt að sjá mun á þeim veruleika og raunveruleikanum.“

Svo er oft spurt í framhaldi af sögunni: „Er hægt að sýna fram á, að slíkt hafi ekki þegar gerst?“

Svipaðar hugleiðingar áður fyrr

breyta

Pyrrhon (upphafsmaður heimspekilegrar efahyggju) var efasemdamaður um möguleikann á þekkingu og hélt því fram að ekkert væri hægt að vita. Vestrænir og austrænir heimspekingar fornaldar hafa að öllum líkindum spáð í svipuðum hlutum eins og sjá má á orðum Zhuāngzǐ:

Í nótt dreymdi mig að ég væri fiðrildi. Nú veit ég ekki hvort ég er maður, sem dreymir að hann sé fiðrildi, eða hvort ég er fiðrildi, sem dreymir að það sé maður.

Í annarri hugleiðingu sinni í bókinni Hugleiðingar um frumspeki, velti Descartes fyrir sér þeim möguleika, til að kanna hvað hann gæti vitað ef hann efaðist um allt, að til sé illur andi, sem starfar við það eitt að blekkja hann. Hvað getur hann þá vitað með vissu, ef allt, sem hann sér, gæti verið blekking? Þessar hugleiðingar leiða í ljós staðhæfinguna „ég er, ég er til“ sem er ávallt sönn á meðan hann getur hugsað hana eða m.ö.o.: „Ég hugsa, því er ég til“. Þessa fleygu línu þekkja margir á latínu sem: „Cogito, ergo sum“.

Hugleiðingar af þessu tagi — þ.e.a.s. geimverusagan — hafa dúkkað upp í ýmiss konar vísindaskáldskap.

Lausnir og afstöður

breyta

Efasemdamenn um möguleikann á þekkingu halda fast í þá afstöðu, að maður geti á engan hátt vitað eitthvað um raunveruleikann, þar sem maður getur með engu móti sýnt fram á, að maður sé ekki bara hugsunin ein, sem illur andi leitast við að blekkja í sífellu. Allt efnislegt eru bara hyllingar, sem hann framkallar, og allt áreiti blekking, sem hann skapar. Sú skoðun hefur verið nútímavædd með hliðsjón af efnishyggju, þar kemur heilabrotið um heila í krukku til skjalanna. Dæmið er áþekkt því, sem kom síðar fram í kvikmyndinni The Matrix.

Merkingarfræðileg mótrök

breyta

Í bókinni Reason, Truth, and History leggur Hilary Putnam fram tillögu, sem sumir telja nægjusama, til að útiloka að maður sé heili í krukku. Hún byggir á því, að heili í krukku gæti aldrei sagt „ég er heili í krukku“ og haft rétt fyrir sér, því hann ætti alltaf við eitthvað annað. Til útskýringar má hugsa sér, að lesandi segi við sjálfan sig að hann sé að lesa þennan texta, en sé í raun liggjandi í rúminu sínu sofandi. Að segja að hann sé að lesa textann væri því ósatt. Með þessu móti telur Putnam sig sýna fram á að slíkar pælingar séu mótsagnakenndar, því orðin sem ég nota í sýndarveruleikanum eiga ekki við í raunveruleikanum. Einnig mætti hugsa sér, að fyrst sýndarveruleikinn er svona líkur raunveruleikanum, þá gæti hann allt eins verið sérstæður raunveruleiki.

En hugsi maður sér: „Hugsanlega er ég í svipaðri stöðu og heilabrotið stingur upp á“, þá er ekkert mótsagnakennt við setninguna og rök efasemdamanna um möguleikann á þekkingu gilda enn.

Tenglar

breyta