Heiðinnamannahellir

65°45′03″N 18°39′03″V / 65.75083°N 18.65083°V / 65.75083; -18.65083 Heiðinamannahellir í Skíðadal er ekki eiginlegur hellir heldur steinbogi mikill sem sýnist til að sjá sem víður hellismunni. Steinboginn er ofarlega í Heiðinnamannafjalli nálægt mynni Gljúfurárdals. Hann er hluti af berggangi miklum úr fagurlega stuðluðu basalti sem skerst upp í gegn um berglögin. Ganginn má rekja nokkur hundruð metra leið efst í fjallshlíðinni með stefnu til suðsuðvesturs. Boginn er óvenjuleg og fögur náttúrusmíð sem sorfinn er til af vatni og vindum. Hugsanlegt er að þarna hafi verið hellir en að þak hans hafi fallið að hluta einhvern tíma á síðari öldum en steinboginn staðið eftir. Vinsæl en allerfið gönguleið liggur að Heiðinnamannahelli. Hin kunna þjóðsaga Krosshólshlátur tengist hellinum.

Krosshólshlátur

breyta

„Heiðinnamannahellir heitir hellir nokkur innarlega í Skíðadal. Þar lá á sú trú að jötunn einn byggi. Krosshóll heitir bær innarlega í Skíðadal. Eitt haust er sagt að þangað kæmi kýr sem enginn þekkti. Bóndinn tekur kúna, elur hana um veturinn og skoðar sem sína eigin. Eina nótt um vorið vaknar bóndi við það að hann heyrir hlátur mikinn og stórkarlalegan. Hann rís upp og lítur út um glugga og sér hvar jötunn einn mikill fer og hefur kú þá á baki sér sem bóndi hafði alið um veturinn. Hlær jötuninn gríðarlega og heyrir bóndi að hann er hróðugur yfir því að bóndinn skyldi hafa alið fyrir hann kúnna heilan vetur, og haft ekki neitt fyrir. Síðar er sagt, þegar einhver hlær mjög hátt, að hann hlæi Krosshólshlátur.“ (Gríma hin nýja V, bls. 165).

Heimildir

breyta
  • Árbók Ferðafélags Íslands 1990, bls. 63-64
  • Gríma hin nýja V
  • Elín Ósk Hreiðarsdóttir 2002. Fornleifakönnun í Eyjafirði XVII. Fornleifastofnun Íslands FS168-99093