Harmljóðin, oft nefnd Harmagrátur Jeremía, eru safn harmkvæða yfir eyðingu Jerúsalem árið 587 f.Kr. Í hebresku biblíunni eru þau hluti af Ketuvim („ritin“) þar sem þau eru ein af rollunum fimm, ásamt Ljóðaljóðunum, Prédikaranum, Rutarbók og Esterarbók. Í kristna Gamla testamentinu koma þau hins vegar fyrir í framhaldi af Jeremíabók sem er hluti af Spámönnunum, þar sem spámaðurinn Jeremía er sagður höfundur þeirra.

Harmljóðin eru að sumu leyti byggð á hefðbundnum harmkvæðum frá fornöld eins og þekkjast frá Mesópótamíu þar sem fall borgar er harmað, og að sumu leyti á sorgarkvæðum þar sem hinn látni er harmaður. Kvæðin lýsa þjáningum fólks sem er lostið réttlátri reiði guðs, eftir að hafa syndgað gegn honum. Harmaljóðin eru fimm talsins. Fræðimenn eru ekki sammála um hvort þau eru eftir einn eða fleiri höfunda. Tungumálið passar við að þau hafi orðið til fyrir herleiðinguna til Babýlon, hugsanlega meðal þeirra sem urðu eftir í Júda.

Í biblíuútgáfu Hendersons frá 1813 var orðið „harmagrátur“ misritað „harmagrútur“. Útgáfan var því uppnefnd „grútarbiblían“.

Tenglar

breyta
   Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.