Grútarbiblía
Grútarbiblía eða Hendersonsbiblía, 1813, er fimmta heildarútgáfa Biblíunnar á íslensku, prentuð í Kaupmannahöfn.
Í byrjun 19. aldar var orðið illmögulegt að komast yfir Biblíur og Nýja testamenti á Íslandi, enda rúm hálf öld frá síðustu útgáfum. Grímur Thorkelín leyndarskjalavörður í Kaupmannahöfn kom þessu á framfæri við nýstofnað Biblíufélag á Fjóni og Holtsetalandi, sem ákvað að bæta úr þessu. Árið 1805 kom skoskur maður, Ebenezer Henderson, til Kaupmannahafnar, en hann hafði tekið vígslu til kristniboðs á Indlandi. Hann gafst brátt upp á að bíða eftir skipsrúmi til Indlands, og hóf í staðinn kirkjulegt starf í Danmörku. Komst hann brátt að fyrrgreindum áformum um að láta prenta Nýja testamentið handa Íslendingum, og sendi skýrslu um málið til Edinborgar, og barst hún m.a. til Hins breska og erlenda Biblíufélags í Lundúnum. Félagið bauðst til að kosta 3.000 eintök. Voru því prentuð 5.000 eintök af Nýja testamentinu og var verkinu lokið 1807. Tókst að senda um 2.000 eintök hingað til lands áður en styrjöld milli Dana og Englendinga braust út, 1807. Afgangurinn lá í Kaupmannahöfn í fimm ár. Um 3.000 bækur voru ætlaðar til gjafa, hitt átti að seljast á fjögur mörk.
Hið breska og erlenda Biblíufélag ákvað að veita einnig fé til að undirbúa og prenta nýja útgáfu Biblíunnar. Var Grímur Thorkelín ráðinn til að hafa umsjón með útgáfunni, og fór hann eftir Waysenhússbiblíu. Prentun hófst, en vegna ófriðarins 1807 þurfti að hætta í miðju kafi, og neyddust þeir Henderson og John Paterson aðstoðarmaður hans til að flýja til Svíþjóðar. Í ágústmánuði 1812 fékk Henderson leyfi konungs til að snúa aftur, og var honum falið að sjá til þess að verkinu yrði lokið og koma bókunum á áfangastað. Eftir ýmsa erfiðleika tókst að ljúka prentun Biblíunnar í árslok 1813. Upplagið var 5.000 eintök. Brot bókarinnar var minna en áður hafði tíðkast, þ.e. áttblöðungsbrot (octavo), enda átti bókin að vera eins ódýr og hægt væri.
Nú stóð í fyrsta sinn á titilblaði að Biblían væri þýdd á „íslensku“, en áður hafði staðið að útlagt væri á „norrænu“, ef tungumáls var á annað borð getið. Í þessari útgáfu voru formálar Lúthers felldir niður, og einnig Apókrýfar bækur Gamla testamentisins, vegna kalvínskra áhrifa þeirra sem styrktu útgáfuna. Grútarbiblían er jafnan talin allra lélegasta Biblíuútgáfa okkar fyrr og síðar, bæði hið ytra sem innra. Þrátt fyrir það varð hún þjóðinni afar dýrmæt sending og var tekið fagnandi. Rataði Biblían eða Nýja testamentið nú inn á flest heimili í landinu og var lesin upp til agna. Eru heil eintök nú sjaldséð. Kemur það m.a. til af því að margir kenndu börnum að lesa á Nýja testamentið.
Þessi fimmta útgáfa Biblíunnar á íslensku er ýmist kölluð Grútarbiblían eða Hendersonsbiblían. Fyrra nafnið er þannig til komið, að Harmljóðin eru í þessari útgáfu kölluð „Harmagrútur Jeremiæ“, í stað „Harmagrátur Jeremiæ“. Orðið „Harmagrútur“ kemur nokkrum sinnum fyrir, bæði í fyrirsögn og síðutitlum, og er því ekki hrein prentvilla.
Ebenezer Henderson, trúboðinn ungi, fór til Íslands með upplag hins langþráða Guðs orðs, og kom til Reykjavíkur 15. júlí sama ár. Ferðaðist hann síðan um landið og gaf og seldi Biblíur og Nýja testamenti. Ritaði hann um ferðir sínar merka Ferðabók í tveimur bindum, sem kom út í Edinborg 1818 (önnur útgáfa 1819). Hún kom út á íslensku 1957 undir heitinu Ferðabók – frásagnir um ferðalög um þvert og endilangt Ísland árin 1814 og 1815 með vetursetu í Reykjavík, Snæbjörn Jónsson þýddi.
Heimildir
breyta- Sigurður Ægisson: Grein í Morgunblaðinu 24. september 2006.
Tenglar
breyta- Biblían frá 1813 @ Google Books. Skoðað 20. september 2010 (pdf 97 MB).