Hamarskotslækur er lækur sem rennur í gegnum Hafnarfjörð. Hann á upptök sín í tveimur kvíslum. Önnur kvíslin er kölluð Kaplakrikalækur og rennur úr Urriðakotsvatni og á suðurbrún Garðahrauns um Kaplakrika og síðan í stefnu eins og Reykjanesbraut  í Setbergshverfinu vestanverðu og kallast þá Setbergslækur. Hin kvíslin kemur upp í Lækjarbotnum syðst í Stekkjarhrauni, rennur  norður meðfram hrauninu og sameinast Setbergslæk í Þverlæk fyrir neðan Setbergsskóla. Hamarskotslækur rennur fyrir neðan Kinnahverfi og um Hörðuvelli og með Hamrinum og síðan út í sjó.

Hamarskotslækur um 1890.

Árið 1904 var fyrsta rafstöð til almenningsnota reist á Íslandi með því að virkja Hamarskotslæk. Jóhannes Reykdal trésmiður stíflaði lækinn við Brekkuna undir Hamrinum og notaði rafmagnsframleiðslu í til að rafvæða 15 hús. Síðar var Hörðuvallastífla gerð ofar í læknum og þar reist stærri rafstöð byggð 1906 til að knýja trésmíðavélar Reykdals og raflýsa hús í bænum. Einnig var sett upp íshús við Hörðuvallastíflu til að sem nýta ísinn á læknum.

Eftir að slys þar sem tvö börn voru hætt komin í apríl 2015 þegar þau festust í affalli í Reykdalsstíflu í Hamarkotslæk þá var stíflan tæmd.

Hamarkotslækur er þekkt kennileiti í Hafnarfirði og skipti bænum í tvennt. Svona var landslagi lýst árið 1958: „Eftir miðjum bænum rennur Hamarskotslækur. Norðan lækjarins er landslagið frábrugðið því sem er sunnan hans. Að norðanverðu er hraunið úfið og hrikalegt. Stórar hraunborgir og drangar með gjótum og kvosum á milli einkenna landslagið. Fyrir sunnan lækinn, mitt í byggðinni, rís Hamarinn, há og fögur klettaborg, sem setur tignarsvip á bæinn. Þar fyrir sunnan taka við hólar og hæðir og gamalt hraun.“ [1]



Heimildir breyta

Tilvísanir breyta

  1. Hafnarfjarðarkaupstaður 50 áraHamar - 13. tölublað (01.06.1958)