Dóri DNA

Íslenskur leikari, rithöfundur og uppistandari

Halldór Laxness Halldórsson (fæddur 16. maí 1985), betur þekktur sem Dóri DNA, er íslenskur leikari, höfundur og uppistandari. Hann er sonur kvikmyndagerðamannanna Guðnýjar Halldórsdóttur og Halldórs Þorgeirssonar. Guðný er dóttir Halldórs Laxness og Auðar Sveinsdóttur Laxness. Halldór kláraði stúdentspróf frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 2006 og útskrifaðist af Sviðshöfundabraut LHÍ árið 2011. Hann er meðlimur í uppistandshópnum Mið Ísland, ásamt Ara Eldjárn, Jóhanni Alfreð Kristinssyni, Bergi Ebba Benediktssyni og Birni Braga Arnarssyni.

Halldór er kvæntur Magneu Guðmundsdóttur arkitekt.

Halldór var upphaflega rappari, með hljómsveitunum Bæjarins Bestu, NBC og 1985!. Hann lagði hljóðnemann á hilluna árið 2008, en hefur komið fram og rappað við sérstök tilefni.

Halldór skrifaði og lék í leikritinu Þetta er grín án djóks, ásamt Sögu Garðarsdóttur sem sett var upp af Menningarfélagi Akureyrar árið 2015. Sama ár gaf hann út ljóðabókina Hugmyndir: Andvirði hundrað milljónir, en var hún tilnefnd til Menningarverðlauna DV árið 2016. Bókin hefur nú komið út í Þýskalandi en Christian Filips þýddi.

Haustið 2019 kom út fyrsta skáldsaga Dóra DNA Kokkáll. Útgefandi er Bjartur. Bókin var ein af tíu söluhæstu skáldsögum landsins í jólabókaflóðinu.

Sama haust var leikritið Atómstöðin - Endurlit frumsýnt í Þjóðleikhúsinu, leikgerð eftir Halldór Laxness Halldórsson og Unu Þorleifsdóttir. Sigríður Jónsdóttir, gagnrýnandi Fréttablaðsins gaf sýningunni fjórar og hálfa stjörnu og sagði meðal annars - „Atómstöðin er fyrsta aðlögun Halldórs Laxness Halldórssonar fyrir svið, gerð í samvinnu við Unu, og lofar ansi góðu. Handbragðið er með ágætum, hann leyfir texta bókarinnar að njóta sín en er óhræddur við að setja sinn stimpil á söguna. Með reglulegu millibili kippir Halldór áhorfendum út úr framvindunni þegar persónur verksins stíga út úr sögunni og gera athugasemdir. Þetta aftengingarástand, beint úr smiðju Bertolts Brecht, hæfir sýningunni vel og úrvinnslan er góð."

Atómstöðin - Endurlit var valin sýning ársins á Grímunni árið 2020.

 Ritaskrá

breyta

Ljóð

breyta
  • Órar, martraðir og hlutir sem ég hugsa um þegar ég er að keyra, Bjartur, 2017
  • Ich bin ein Bauer und mein Feld brennt (þýðing), RoughBooks Verlag, Þýskaland, 2016
  • Hugmyndir: Andvirði hundrað milljónir, Bjartur, 2015
  • Hugmyndir: Andvirði hundrað milljónir, Tunglið, 2015 [Gefin út í 69 eintökum]

Skáldsögur

breyta
  • Kokkáll, Bjartur, 2019

Leikrit

breyta
  • Þétting Hryggðar, Borgarleikhúsið, 2021 (ásamt Unu Þorleifsdóttur)
  • Atómstöðin - endurlit, Þjóðleikhúsið, 2019 (ásamt Unu Þorleifsdóttur)
  • Þetta er grín, án djóks, Menningarfélag Akureyrar, 2015 (ásamt Sögu Garðarsdóttur)
   Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.