Hafmey [1] er þjóðsagnavera sem er í líki kvenmanns ofan mittis en með hreistraðan sporð eins og fiskur neðan og er sögð lifa í hafinu. Karlkyns hafbúi nefnist marbendill.

Hafmeyja eftir John William Waterhouse

Hafmeyjar og hafmenn (einu orði nefnd hafbúar) hafa verið viðloðandi þjóðsagnir mannkyns mun lengur en elstu menn muna. Það er fyrst í grískum bókmenntum sem minnst er á hafbúa. Rómverska skáldið Óvidíus segir að hafmeyjar hafi orðið til þegar galeiður Trójumanna brunnu í stríði og timbrið af þeim breyttist í hold og blóð hinna grænleitu dætra sjávar. Það er þó ekki eina kenningin um upphaf hafbúanna. Írar halda því fram að hafmeyjar séu gamlar og útskúfaðar kerlingar úr bænum St. Patricks. Samkvæmt þjóðsögum frá Líflandi eru hafmeyjar ungbörn sem drukknuðu og voru dæmd til að lifa í djúpi Rauðahafsins. Margir rugla saman hafmeyjum og sírenum þar sem hafmeyjar eru líka frægar fyrir söng sinn. Hafmeyjar lifa oft einnig í fljótum. Fræg er vatnamærin Lórelei, sem ærir ferjumenn á Rín með söng sínum. Þegar útliti hafmeyja er lýst eru þær vanalega mjög fagrar.

Íslenskar þjóðsögur geta líka um hafmeyjar. Þær koma oft fyrir í líki kvenna sem geta afklæðst selsham og horfið í hann aftur. [2]

Samheiti

breyta

Hafmey á sér mörg samheiti á íslensku. Þau ertu til dæmis: hafgúa, hafgúfa, hafgýgur [3], hafmeyja, hafmær og mardöll [4] (aðeins til í eintölu), margýgja, margýgur, meyfiskur og sækona.

Tilvísanir

breyta
  1. Beygingarlýsing íslensks nútímamáls
  2. Selshamurinn; úr Þjóðsögum Jóns Árnasonar af Snerpu.is
  3. Beygingarlýsing íslensks nútímamáls
  4. Beygingarlýsing íslensks nútímamáls

Tengt efni

breyta