Húsavíkur Lalli er draugur sem meðal annars er greint frá í Þjóðsögum Jóns Árnasonar. Það er sögn þeirra er helzt þykjast þar um vita að draugur þessi var uppvaktur fyrst úr Höfðakirkjugarði í Höfðahverfi á dögum síra Ketils Jónssonar í Húsavík er þar var prestur undir og um miðja 18. öld og átti dóttur Magnúsar prests þess er þar drukknaði voveiflega og Oddnýjar er síðar átti Þórleif prófast Skaftason. Er mælt að maður annar hefði viljað ná konunni og sent því síra Katli eða henni þenna uppvakning. Sögðu þeir er séð þóttust hafa að hann gengi á kjól með hatt þrísperrtan og paruk undir og hugðu menn því prest eða nokkurn annan fyrimann verið hafa, en síra Ketill hefði fengið varið sig og konu sína fyri honum svo hann mætti þeim aldrei grand vinna. En þó var þessum Lalla það kennt er dóttir síra Ketils frumvaxta drukknaði hér undir Húsavíkurhöfða í Ingunnarpolli sem síðan er nefndur.

Dætur síra Ketils tvær áttu þeir síra Sigfús prófastur og prestur í Höfða og síra Þórlákur Jónsson í Húsavík er báðir voru uppi fyrir og um 18. aldar lokin, og var sagt að Lalli þessi hefði fylgt þeim báðum á mis, en þeir hefði vitað svo vel frá sér að hjá Sigfúsa presti hefði hann aldrei náð að komast nema að landamerkjum, en hjá síra Þórláki aldrei nema að túngarðinum, og eru ýmsar sögur um að hinir og þessir hafi átt að sjá hann (þ.e. Lalla) fylgja þeim og þeim er átti leið frá Húsavík að Höfða eða þaðan og þangað, og þekktist jafnan á því að hann hafði á höfði hatt þrísperrtan yfir lokkaparuki, og eru sögur þar um so fánýtar og fáfengilegar að ég get ekki verið að telja þær né tína.

En það sem seinast er sagt af þessum Húsavíkur-Lalla er það að skömmu eftir að faktor Mohr var setztur á Akureyri þá var það eitt kveld að maður kemur að honum og spyr hvert hann vili láta sýna sér Húsavíkur-Lalla. Mohr er fús til þess og biður hann sýna sér. Hinn bendir honum úr búðardyrum hvar hann standi, en Mohr sér ei að heldur. Hinn biður hann þá koma höfði undir handkrika sér inn vinstra. Mohr gerir svo og getur þá séð Lalla; snarar hann þá inn í búðina og sækir steytta byssu og hleypir af beint á Lalla og sáust þar eldglæringar einar.

En morguninn eftir hefði átt að finnast herðarblað eða rif úr manni þar sem Lalli hefði staðið þegar hann fekk í sig skotið, en síðan vita menn ekki að við Lalla hafi neinstaðar vart orðið.

En svo mikið orð fór þó af þessum Húsavíkur-Lalla um seinni hlut 18. aldar að sýslumaður Esphólín virðist að geta hans í Árb., 9. deild, því sagt var að hann gengi nær ljósum logunum, og einu sinni þóttust ófreskir menn sjá Lalla og Mývatns-Skottu, sem seinna var nefnd Mýrarsels-Skotta, hittast á Laxamýri og fljúgast á lengi vel, og mun það hafa verið ófagur "greyjagangur" (sem Sverrir konungur kvað).

Heimild breyta

Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar.