Hörgur er heiðið blóthús eða blótstallur. Einnig merkir orðið grjóthóll, hæð, fjall, hnjótur, hrjóstrugt land eða skortur.

Talið er hörgar hafi upphaflega verið blótstaðir undir berum himni, líklega steinaltari. Á þetta bendir uppruni orðsins hörgur. Í Eddukvæðunum er getið um hörg, sem hlaðinn var úr steinum. Stundum virðast hörgarnir hafa verið hús. Getið er um hörga sem brunnu, og um hátimbraða hörga.

Á Íslandi hafa fundist tóftir sem talið er að séu af fornum hörgum og hefur ein þeirra verið rannsökuð. Kom þá í ljós að hörgurinn hefur verið hús í líkingu við hof en miklu minni.

Því hefur verið haldið fram að ásynjurnar hafi aðalega verið dýrkaðar í hörgunum. Þessi skoðun byggist á því, að Snorri kallar höllina Vingólf hörg. En þá höll áttu ásynjur og víðar er getið um dýrkun þeirra í hörgum. Ekki voru allir hörgar helgaðir gyðjum, i Svíþjóð eru til örnefnin Þórshörgur og Óðinshögur.

Talið er að hörgar séu eldri en hofin. Aðalmenjar um hörga eru í örnefnum og er þeirra ekki getið nema á tveim stöðum í sagnaritum.

Heimildir

breyta
  • „Hvað þýðir orðið hörgur?“. Vísindavefurinn.
  • Um hof og hörga[óvirkur tengill]