Höfrungahlaup
Höfrungahlaup er leikur sem fer þannig fram að tveir eða fleiri standa hálfbognir, og sá aftasti stekkur yfir þá hverjum á fætur öðrum. Hann leggur báða lófa á bak þess sem er fyrir framan hann og stekkur yfir (með fæturna útglennta) og þannig koll af kolli þar til hann er fremstur. Þá hallar hann sig fram og beygir sig í hnjánum og sá sem er aftastur tekur sig til og stekkur yfir alla sem taka þátt og þannig koll af kolli.
Að brjóta hval
breytaHelgi Hálfdánarson hélt því fram að það að brjóta hval væri forn leikur sem væri svipaður þeim sem nú er nefndur höfrungahlaup. Í bréfi til Gísla Jónssonar, þar sem hann reynir að útskýra línur í Hulduljóði eftir Jónas Hallgrímsson, segir hann:
- Alþekktur barnaleikur kallast höfrungahlaup. Þar eltir og stekkur hver fram yfir annan í svo langri röð sem verkast vill. Ýmsir töldu líklegast, að þessi leikur eða annar honum svipaður hafi kallazt að brjóta hval, enda sé það heiti hugsanlega dregið af bókstaflegri merkingu orðsins hvalbrot, líkt því að leikur nefnist höfrungahlaup eftir hreyfingum sem þykja minna á hvali (höfrunga). Í ljóðinu væri þá sjávaröldum, sem velta hver um aðra upp í brot á sandi, líkt við börn í slíkum leik. [1]
Ljóðlínurnar í Hulduljóði sem vísað er til eru þessar:
- Hvað er í heimi, Hulda, líf og andi,
- hugsanir drottins sálum fjær og nær,
- þar sem að bárur brjóta hval á sandi,
- í brekku, þar sem fjallaljósið grær,
- þar sem að háleit hugmynd leið sér brýtur.
- Hann vissi það, er andi vor nú lítur.