Hólatorg er gata í Vesturbæ Reykjavíkur. Það byggðist upp úr lokum Fyrri heimsstyrjaldarinnar.

Fjögur einlyft íbúðarhús með alls 7 íbúðum standa norðan við það, númeruð 2-8, tvö úr timbri (í bárujárns-sveitserstíl, byggð 1919 og 1920) en tvö steinsteypt (í ný-barokkstíl, bæði byggð á árið 1928), en sunnan við það er Hólavallakirkjugarður. Frá austurenda Hólatorgs liggur Kirkjugarðsstígur í austur og Garðastræti í norður, en frá vesturenda þess liggur Sólvallagata í vestur og Ljósvallagata í suður. Gatan er tvístefnugata, með bílastæðum við norðurhliðina. Skipulagsreiturinn sem Hólatorg tilheyrir er verndað svæði í borgarskipulagi, en ekkert húsanna er verndað í sjálfu sér.

Forskeytið „Hóla-“ er dregið af því að gatan liggur um gamla Hólavöll, en viðskeytið „-torg“, sem er ekki algengt götuheiti, er vegna þess að í upphafi stóð til að þar yrði eiginlegt torg, sem næði frá kirkjugarðinum og alveg upp að húsunum. Það varð þó úr að hið fyrirhugaða torg varð venjuleg gata, og hluti landsins sem upphaflega var hugsaður fyrir það varð að allstórum görðum fyrir framan (sunnan) húsin.

„Hólatorg“ mun vera eina götuheitið í Reykjavík sem er til á tveim stöðum, en samnefnt torg er til í Grafarholti.

Heimild

breyta