Gullgerðarmaðurinn

bók um Sval og Val frá árinu 1970

Gullgerðarmaðurinn (franska: Le faiseur d'or) er tuttugasta bókin í bókaflokknum um Sval og Val. Hún kom út árið 1970. Höfundur og teiknari hennar var listamaðurinn Fournier og var þetta fyrsta bók hans eftir að Franquin hætti ritun sagnanna. Hún var gefin út á íslensku árið 1979 og telst sjötta í röðinni í íslenska bókaflokknum.

Söguþráður

breyta

Sveppagreifinn ljóstrar því upp í sjónvarpsviðtali að hann lumi á bók hins kunna gullgerðarmanns Nikulásar gráa (Nicolas Flamel). Svalur og Valur óttast að þessar upplýsingar kunni að freista glæpamanna og flýta sér til seturs Sveppagreifans. Í ljós kemur að greifanum hefur verið rænt en Zorglúbb, sem varð vitni að ráninu ber kennsl á Samma, hinn illa frænda Vals, sem leiðtoga mannræningjanna.

Skúrkunum tekst að klófesta bókina og koma upp aðstöðu til gullgerðar í yfirgefnum kastala. Svalur og Valur hafa upp á þeim og endurheimta bók gullgerðarmannsins eftir æsileg átök. Meðan á hamagangnum stendur gangsetur gormdýrið gullgerðarvélina fyrir slysni og tekst óvart að framleiða gull. Sveppagreifinn tekur að lokum vélina í sína umsjá og ætlar að rannsaka hana vísindalega.

Aukasaga bókarinnar er stutt jólasaga um einmanna son efnafólks sem fagnar jólunum með fátækum eldri manni og hittir þá Sval og Val.

Fróðleiksmolar

breyta
  • Franquin lagði hönd á plóg við gerð bókarinnar. Hann teiknaði gormdýrið í sögunni, en hóf síðar að semja sjálfstæðan bókaflokk um ævintýri Gorms og heimilaði ekki að dýrið kæmi við sögu í fleiri Svals og Vals-bókum.
  • Fournier gegndi herþjónustu meðan á ritun bókarinnar stóð og olli það stundum vandræðum við að skila inn teikningum í tíma. Vegna þessa þurfti Franquin því að hlaupa í skarðið og eru nokkrir myndarammar í sögunni teiknaðir af honum, þar sem hann hermdi eftir teiknistíl lærisveinsins.
  • Í upphaflegri útgáfu bókarinnar á frönsku voru aukasögurnar tvær. Sú síðari, Japanski sveppurinn (franska: Le champignon nippon) , var í raun upphafið á næstu sögu bókaflokksins: Sprengisveppnum. Í íslensku útgáfunni var þessu breytt á þá leið að Sprengisveppurinn var birtur í heilu lagi í einni bók.

Íslensk útgáfa

breyta

Gullgerðarmaðurinn var gefinn út af Iðunni árið 1979 í íslenskri þýðingu Jóns Gunnarssonar. Þetta var sjötta bókin í íslensku ritröðinni.