Guðrún Gunnarsdóttir

Íslensk söngkona og fjölmiðlakona

Guðrún Gunnarsdóttir (f. 22. júní 1963) er íslensk söng- og fjölmiðlakona. Guðrún hóf tónlistarferil sinn árið 1983 með MK-kvartettinum og hefur síðan verið ein ástsælasta söngkona þjóðarinnar. Guðrún hefur ekki starfað með mörgum hljómsveitum en hún var söngkona í Svefngölsum á sínum tíma og síðar var hún söngkona í Snörunum, ásamt þeim Ernu Þórarinsdóttur og Evu Ásrúnu Albertsdóttur. Síðan hún hóf söngferil sinn hefur hún gefið út sex sólóplötur og þrjár plötur með Friðriki Ómari Hjörleifssyni, en aðrar plötur sem Guðrún hefur sungið inn á á ferlinum eru á annað hundrað. Guðrún hefur þrisvar sungið bakrödd í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva fyrir Íslands hönd, auk þess að hafa farið fjölmörg skipti í keppnina sem fréttamaður Rásar 2.

Árið 1992 keppti Guðrún ásamt Pálma Gunnarssyni í Landslaginu sem fór fram á Akureyri og var þetta í fjórða sinn sem keppnin var haldin, keppnin átti að verða eins konar svar við Eurovision undankeppninni þar sem að árið 1988 hafði Ríkissjónvarpið boðið aðeins örfáum útvöldum lagahöfundum að senda lög í inn í undankeppni Eurovision, þannig að almenningur hafði ekki kost á að taka þátt í keppninni, þess vegna var ákveðið að halda keppnina. Guðrún og Pálmi sungu lagið Ég man hverja stund eftir þá Jon Kjell Seljeseth og Jónas Friðrik Guðnason, þau sigruðu keppnina og voru Guðrún og Pálmi valin bestu flytjendurnir.

Guðrún hefur komið víða við auk þess sem á undan var talið, hún hefur meðal annars sungið á Lýðveldishátíðinni 1994 á Þingvöllum í tilefni 50 ára afmæli lýðveldisins, Jólagestum Björgvins Halldórssonar, tvö ár var hún ein af Frostrósunum sem skipuðu veigamikinn sess í jólahaldi margra um árabil, hún hefur sungið á fjölda tónleika til heiðurs þeim Vilhjálmi Vilhjálmssyni og Elly Vilhjálms og tekið þátt í skipulagningu fjölda þeirra til heiðurs Elly. Árið 2013 hóf Guðrún samstarf við þau Jógvan Hansen og Sigríði Beinteinsdóttur, og héldu þau tónleika með yfirskriftinni ,,Við eigum samleið" sem slógu rækilega í gegn, og ganga enn þann dag í dag fyrir fullu húsi í Salnum í Kópavogi, en þau hafa fyllt salinn í hátt í tuttugu skipti.

Fyrsta sólóplata Guðrúnar, Óður til Ellyjar, seldist í yfir 6.000 eintökum og fór hún í gull. Platan var einnig valin plata ársins og var Guðrún tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem söngkona ársins.

Plötur Guðrúnar og Friðriks, Ég skemmti mér og Ég skemmti mér í sumar, seldust í yfir 10.000 eintökum og fóru í gull.

Plötur

breyta
Ár Heiti
2003 Óður til Ellyjar
2004 Eins og vindurinn
2008 Umvafin englum
2009 Cornelis Vreeswijk
2013 Bezt
2018 Eilífa tungl

Plötur ásamt Friðriki Ómari

breyta
Ár Heiti
2005 Ég skemmti mér
2006 Ég skemmti mér í sumar
2007 Ég skemmti mér um jólin

Eurovision

breyta
Ár Lag
1993 Þá veistu svarið Bakrödd
1995 Núna Bakrödd
2008 This Is My Life Bakrödd

Tenglar

breyta