Guðrún Björnsdóttir

íslenskur stjórnmálamaður og baráttukona (1853-1936)

Guðrún Björnsdóttir (f. 27. nóvember 1853Eyjólfsstöðum á Völlum d. 11. september 1936 í Reykjavík) var íslenskur stjórnmálamaður og baráttukona fyrir kvenréttindum. Guðrún sat á árunum 1908 til 1914 í bæjarstjórn Reykjavíkur. Foreldrar Guðrúnar voru Björn Skúlason, umboðsmaður og bóndi, og kona hans Bergljót Sigurðardóttir. Guðrún var gift Lárusi Jóhannessyni (1858-1888), presti.

Guðrún Björnsdóttir

Uppvöxtur og fjölskylda breyta

Guðrún Björnsdóttir fæddist að Eyjólfsstöðum á Völlum árið 1853 og ólst þar upp til 10 ára aldurs er faðir hennar féll frá. Fór hún þá til Eskifjarðar í fóstur og nokkrum árum síðar til móðurbróður síns á Langanesi. Þaðan sigldi hún til Kaupmannahafnar og var þar um skeið en kom síðan til baka til frændfólks síns á Langanesi. Hún gekk að eiga sr. Lárus Jóhannesson árið 1884 og bjuggu þau að Sauðanesi á Langanesi. Þau eignuðust fjórar dætur, Mareni Ragnheiði Friðriku, (f. 1885), Bergljótu (f. 1886), Guðrúnu Ingibjörgu (f. 1887) og Láru Ingibjörgu (f. 1888).

Störf að félagsmálum og stjórnmálum breyta

Guðrún varð ekkja eftir aðeins fjögurra ára hjónaband og dvaldist hjá bróður sínum, séra Halldóri Bjarnasyni að Presthólum í Núpasveit í Norður-Þingeyjarsýslu. Hún bjó um stund á Sigurðarstöðum þar í sveit uns hún flutti með dætrum sínum til Reykjavíkur árið 1900. Hóf hún þar mjólkursölu og rak hana af miklum dugnaði. Reit hún í blöð um mjólkursölumálin og sýndi meðal annars fram á nauðsyn þess að koma öðru og betra skipulagi á þau til tryggingar hreinlæti og heilbrigði bæjarbúa.

Guðrún þótti bæði mikil glæsikona og kvenskörungur. Í minningargrein um hana sem birtist í Morgunblaðinu 18. september 1936 sagði:

Frú Guðrún var sögð mikil fríðleikskona í æsku sinni og alla tíð var hún svipmikil kona og fyrirmannleg og auðþekt hvar sem hún fór. Hún var harngóð kona og vinföst og rausnarleg búkona. Hún var ör kona og ákaflynd nokkuð og mesta málafylgjukona, og ljet mörg mál til sín taka, þegar hún var í broddi lífsins. ... Með frú Guðrúnu er fallin í valinn kona, sem var í senn stórbrotin kona í gömlum stíl og ein af brautryðjendum hinna nýju kvenrjettinda í landinu.[1]

Guðrún stóð framarlega í kvenréttindabaráttu fyrstu áratugi 20. aldarinnar og var einn stofnenda Kvenréttindafélags Íslands. Guðrún var ein af þeim konum sem fyrstar voru kosnar í bæjarstjórn Reykjavíkur, en ásamt henni voru Bríet Bjarnhéðinsdóttir, Þórunn Jónassen og Katrín Magnússon kosnar í bæjarstjórn árið 1908. Guðrún sat í bæjarstjórn árin 1908 til 1914. Í bæjarstjórn beindist áhugi hennar mest að heilbrigðismálum og fræðslumálum. Sérstaklega beitti hún sér fyrir jafnréttismálum, fræðslumálum kvenna og jafnrétti þeirra til embætta. Guðrún barðist meðal annars fyrir stofnun Námsstyrktarsjóðs kvenstúdenta.

Guðrúnartún, áður Sætún breyta

Í nóvember 2010 tilkynnti Skipulagsráð Reykjavíkurborgar að nafni Sætúns í Reykjavík skyldi breytt í Guðrúnartún til að heiðra minningu Guðrúnar Björnsdóttur. Um leið var samþykkt að breyta nafni þriggja annarra gatna í Túnahverfi til heiðurs öðrum baráttukonum fyrir kvenréttindum. Nafni Skúlagötu var breytt í Bríetartún (til heiðurs Bríetar Bjarnhéðinsdóttur), nafni Höfðatúns í Katrínartún (til heiðurs Katrínu Magnússon og nafni Skúlatúns í Þórunnartún (til heiðurs Þórunni Jónassen). Þessar fjórar konur voru þær fyrstu sem náðu kjöri til bæjarstjórnar Reykjavíkur.[2]

Heimildir breyta

Tilvísanir breyta

  1. Minningargrein um Guðrúnu Björnsdóttur, Morgunblaðið 18. september 1936, bls. 7.
  2. Frétt Pressunnar af ákvörðun Skipulagsráðs Geymt 26 nóvember 2010 í Wayback Machine, sótt 23. nóvember 2010.