Gennaker er ósamhverft belgsegl sem er sett upp þegar siglt er undan vindi. Nafnið er dregið af því að það er eins konar millistig milli belgsegls (spinnakers) og genúasegls. Gennaker er festur að ofan í mastrið og fremra horn hans að neðan í stefnið eða í bugspjót að framan. Aftara hornið leikur svo laust.

Melges 24-kjölbátur með gennaker uppi.

Gennaker hefur meiri seglflöt en genúasegl en minni en hefðbundið belgsegl. Hann nær hins vegar víðara horni vindáttar en hefðbundið belgsegl. Gennaker virkar þannig vel í hliðarvindi meðan belgsegl hentar aðeins til að sigla lens eða bitahöfuðsbyr. Gennaker er líka auðveldari í notkun en hefðbundið belgsegl þar sem fremra horn hans er alltaf fast. Þegar á að venda með gennaker er aftara hornið tekið fram fyrir framstagið og strengt aftur hinum megin.