Galmaströnd

(Endurbeint frá Galmarsströnd)

Galmaströnd er strandlengja sem liggur nær miðjum Eyjafirði að vestanverðu. Hún er nú talin ná frá Hörgárósum í suðri að eyðibýlinu Hillum í norðri.

Galmaströnd

Galmaströnd er kennd við Galma landnámsmann sem nam land í vestarverðum Eyjafirði á milli Þorvaldsdalsár og Reistarár, og því er ströndin kennd við hann að því er segir í Landnámabók. Á ströndinni er sjávarþorpið Hjalteyri og aðeins þar fyrir sunnan Dysnes sem var á sínum tíma í umræðunni sem mögulegur staður fyrir stóriðju. Á Dysnesi hafa fundist kuml úr heiðnum sið og merkar fornminjar.

Galmaströnd hefur einnig verið nefnd „Galmansströnd“ „Gálmaströnd“ eða „Galmarsströnd“.

Galmaströnd er í Hörgársveit (áður Arnarneshreppi). Þar hefur lengi verið þéttbýlt, enda ströndin grasgefin og gjöfull sjór á aðra hlið en há fjöll á hina með góða afrétt.

Um „Galmarsströnd“ sagði skáldið Jón frá Pálmholti:

Þegar ég var að alast upp á þessari strönd nokkru fyrir miðja öldina, voru flest býlin fremur smá. Umhverfis bændabýlin voru allvíða kot og hjáleigur en höfðu þó fyrr verið fleiri. Þeim fækkaði ört um miðbik aldarinnar og lögðust síðan af. Heimskreppan teygði arma sína þangað og hafði lamað þrek manna og fækkað möguleikum og sjósókn aflögð að mestu, en kotbændur lifðu mest af sjó og margir bændur einnig. Nokkur býli voru þó reisulegri en önnur og bar hæst stórbýlið Fagraskóg, sem stendur nokkuð hátt nyrst á ströndinni, en þar bjuggu á þessum tíma Stefán Stefánsson, hreppstjóri og alþingismaður, og kona hans, Þóra Magnúsdóttir úr Reykjavík, en Stefán var bróðir Davíðs skálds.

Heimildir breyta

  • Jón frá Pálmholti: „Galmarsströnd“, Lesbók Morgunblaðsins, 23. tbl. bls. 6-7, 17. júní 1995.
  • „Örnefnastofnun Íslands“. Sótt 26. febrúar 2006.
  • Vefur Örnefnastofnunar/Árnastofnunar: Örnefnið Gálma, skoðað 2. júní árskoðað 2010.